Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hjalti Þorláksson

(26. apríl 1798 [1799, Vita] –25. maí 1876)

Prestur,

Foreldrar: Síra Þorlákur Jónsson á Stað á Snæfjallaströnd og kona hans Guðrún Guðmundsdóttir í Reykjarfirði, Eiríkssonar. F. að Ósi í Bolungarvík. Þegar hann var þriggja ára, var hann tekinn í fóstur af móðurbróður sínum, Ara Guðmundssyni að Uppsölum í Seyðisfirði. Lærði fyrst hjá frænda sínum Jóni Sigurðssyni, síðar presti á Söndum, fylgdi honum suður til vígslu, til þess að ná stúdentsprófi, en tókst ekki (DN., ekki nefnt í Vita), síðan hjá síra Torfa Magnússyni á Stað í Grunnavík, stúdent úr heimaskóla 20. mars 1826 frá síra Páli Hjálmarssyni á Stað á Reykjanesi, með heldur lélegum vitnisburði (eftir 7 ára nám samtals, segir í Vita), enda þókti hann gáfnatregur, og eru til sagnir um vanþekking hans, fekk predikunarleyfi 19. okt. s.á., var síðan á Stað í Grunnavík, fluttist þaðan að Hóli í Bolungarvík 1828, vígðist 28. febr. 1830 aðstoðarprestur síra Eiríks Vigfússonar á Stað í Súgandafirði, en eftir lát síra Eiríks 1838 varð hann embættislaus, fluttist þá að Breiðabóli í Skálavík og bjó þar til vors 1844, fekk Stað á Snæfjallaströnd 19. júní 1843 og fluttist þangað vorið eftir, sókti um lausn frá prestskap 1858, en fekk ekki fyrr en 31. jan. 1860, og var þá prestakallið lagt niður, en hann fekk eftirlaun nokkur, missti þau 1868, vegna þess að hann gaf saman hjón ólöglega. Hann var eftir þetta á ýmsum stöðum, stundaði jafnvel enn 1865 sjóróðra í Bolungarvík, en andaðist að Snæfjöllum. Hann þókti óprestlegur í háttum, búralegur, heldur illa látinn, drykkfelldur og jafnan mjög fátækur. Sjómaður var hann ágætur og stýrði skipum svo vel, að með afburðum var talið.

Kona 1 (5. sept. 1826): Rakel (f. um 1801, d. skömmu fyrir 1850) Þorsteinsdóttir á Hesteyri, Bjarnasonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Þorlákur síðast að Dvergasteini í Seyðisfirði, Guðrún átti Jakob að Skarði á Snæfjallaströnd Þorsteinsson (Halldórssonar), fluttist til Vesturheims (d. þar 2. jan. 1899), Margrét átti launson með Þorsteini Halldórssyni að Skarði (tengdaföður Guðrúnar, systur sinnar), giftist síðan fyrst Jóhannesi nokkurum, síðan Ólafi Ólafssyni í Bæjum á Snæfjallaströnd, Solveig (var vinnukona að Kleifum í Seyðisfirði 1855), Rakel átti Friðrik Eiríksson í Vogum í Vatnsfjarðarsveit, Guðmundur á Sandeyri, Ari lausamaður í Nesi í Grunnavík 1870 (drukknaði).

Kona 2 (skömmu fyrir 1850): Margrét (f. um 1800, d. 6. apríl 1865) Magnúsdóttir á Garðsstöðum í Ögursveit, áður s.k. Sturlu Sturlusonar að Kleifum í Seyðisfirði; þau síra Hjalti voru bl. og slitu samvistir, er hann lét af prestskap (Vitæ ord. 1830; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.