Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hjalti Markússon

(– – 1761)

Prestur.

Foreldrar: Markús sýslumaður Bergsson í Ögri og kona hans Elín Hjaltadóttir prests í Vatnsfirði, Þorsteinssonar. Lærði í Skálholtsskóla, stúdent 1742, var síðan í þjónustu Erlends sýslumanns Ólafssonar, vígðist 1745 (líkl. 8. ág.) aðstoðarprestur síra Sigurðar Sigurðssonar í Holti í Önundarfirði (árinu fyrir hafði Harboe gert hann rækan frá vígslu vegna vanþekkingar og nefnir hann hinn „mesta einfeldning “), varð að láta af prestsþjónustu 1754 vegna vanheilsu (holdsveiki, varð karlægur og sjónlaus). Hann bjó á Mosvöllum, d. fyrir 8. ág. 1761. Hann naut styrks af tillagi til þurfandi presta.

Kona: Gróa (f. um 1721, d. 27. apríl 1800, einnig holdsveik) Sigurðardóttir prests í Holti í Önundarfirði, Sigurðssonar. Dóttir þeirra: Elín (f. um 1750, d. 15. júní 1835) átti Pál Þórðarson í Neðra Breiðadal (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.