Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hjalti Jónsson

(1766–15. febr. 1827)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Sveinsson á Stað í Steingrímsfirði og kona hans Guðríður Jónsdóttir lögréttumanns í Háafelli í Hvítársíðu, Vigfússonar. F. á Prestbakka.

Lærði hjá síra Sæmundi Hálfdanarsyni í Gufudal. Var í Skálholtsskóla 1781–4, síðan heima 2 vetur (er skóli féll niður), stúdent frá Gísla rektor Thorlacius sumarið 1786, var síðan hjá foreldrum sínum. Var 15. okt. 1787 skipaður djákn í Odda, en mun ekki hafa farið þangað, vígðist aðstoðarprestur föður síns 6. júlí 1794, skipaður 31. ág. 1795 föður sínum til aðstoðar í prófastsstörfum, bjó í Grænanesi 1795–8; fekk Stað 30. mars 1798, er faðir hans lét af prestskap, var skipaður prófastur í Strandasýslu 28. júní 1799, hélt hvoru tveggja til æviloka. Hann var merkismaður og valmenni, kennimaður ágætur, frábær mælskumaður og predikaði jafnan blaðalaust, örlátur um efni fram, smiður góður og skáldmæltur (sjá Lbs.). Hann hefir verið heldur hirðulítill um embættisbækur og bókhald.

Kona (1795): Sigríður (f. 1774, d. 8. júlí 1842) Guðbrandsdóttir prests að Brjánslæk, Sigurðssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Rannveig átti fyrst launbarn með Birni Benjamínssyni prests í Hofsþingum, Jónssonar, giftist síðan fyrst Sveini gullsm. Þorvaldssyni í Hvammi í Dýrafirði, síðar Jóni smið ríka (kölluðum sterka) Sveinssyni í Hvammi, síra Andrés í Flatey, Guðbrandur hreppstjóri í Kálfanesi, Daníel gullsmiður í Hlíð í Þorskafirði, Gunnfríður átti Guðmund Þorsteinsson á Kirkjubóli í Steingrímsfirði, Sigríður átti Einar Jónatansson á Víðivöllum í Steingrímsfirði, Jón að Hrófá, síðast í Kjóey á Breiðafirði, Þorbjörg f.k. Sigfúsar Þorleifssonar að Múla á Skálmarnesi (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.