Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Helgi Ólafsson

(um 1646–1707)

Prestur.

Foreldrar: Síra Ólafur aðstoðarprestur Hálfdanarson að Undornfelli og kona hans Þórey Ormsdóttir, Jónssonar (bróðurdóttir Björns að Skarðsá). Lærði í Hólaskóla, virðist hafa orðið stúdent 1668, varð 10. apríl s. á. djákn á Reynistað, missti það starf vegna barneignarbrots (með konu þeirri, er hann kvæntist síðar), réðst að tilhlutan Gísla byskups Þorlákssonar 1674 í þjónustu Jóns sýslumanns í Múlaþingi, bróður hans, var kjörinn af sóknarmönnum samsumars prestur að Hjaltabakka, og hét Gísli byskup að vígja hann, ef hann kæmi að austan á tilsettum tíma, en hann kom ekki, enda átti hann þá annað barn í vændum (með Ljótunni Halldórsdóttur), og fæddist það í árslok 1674, og var þá útséð um prestskapinn í það sinn.

Var síðan við búhokur um hríð, en flosnaði upp, fór 1682 til Svíaríkis, til Guðmundar fornfræðings, bróður síns, fór aftur til Íslands 1683, safnaði þar handritum handa fornfræðadeild, kom aftur til Svíaríkis skömmu síðar með allálitlegt safn handrita, fór 1686 frá Stokkhólmi til Kh. og þaðan aftur til Íslands, fekk 18. ágúst 1685 uppreisn til prestskapar (og eru nefnd 3 frillulífisbrot hans, með 2 ógiftum stúlkum, hið 3. með konu hans, og hefir það verið í 2. sinn, og þá of bráð barneign), fekk Stað í Hrútafirði 1689 og hélt til æviloka (líkl. í febr. 1707). Hann var vel gefinn, vel að sér og vel látinn, skáldmæltur, eru eftir hann bæði lausavísur og andlegur kveðskapur, t. d. framhald Samúelssálma síra Hallgríms Péturssonar (sjá Lbs.).

Kona: Margrét Sigmundardðóttir.

Börn þeirra, sem upp komust: Hálfdan að Sellóni í Helgafellssveit, Sigmundur að Hraunsfirði, Hjarðarbóli og víðar, Helga átti fyrr Auðun Jónsson frá Melum í Hrútafirði, síðar Svein Þorleiksson á Staðarbakka í Helgafellssveit (sonur þeirra Helgi, faðir Jóns skálds að Neðri Lá í Eyrarsveit) (HÞ.; Saga Ísl. V; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.