Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Helgi Thordersen (Guðmundsson)

(8. apríl 1794–4. dec. 1867)

Byskup.

Foreldrar: Guðmundur Þórðarson, fyrr hegningarhússráðsmaður, síðar verzlunarstjóri í Hafnarfirði (d. 5. sept. 1803), og kona hans Steinunn Helgadóttir á Ökrum á Mýrum. F. í Reykjavík. Hann ólst eftir síðara hjónaband móður sinnar upp með stjúpföður sínum, síra Brynjólfi Sigurðssyni (síðast að Útskálum), tekinn í Bessastaðaskóla 1809, stúdent 1813, með ágætiseinkunn í öllum greinum, nema einni.

Bjarni kaupm. Sívertsen kostaði hann til háskólanáms, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 22. okt. 1814 (einkunn: „bonum“), tók annað lærdómspróf 1815 og embættispróf í guðfræði 20. apríl 1819, bæði með 1. einkunn, stundaði barnakennslu í Rv. veturinn 1819–20, fekk Saurbæ á Hvalfjarðarströnd 6. apríl 1820, vígðist 7. maí s. á., Odda 4. maí 1825, prófastur í Rangárþingi 6. okt. 1826, dómkirkjuprestur í Rv. 4. nóv. 1835, fluttist þangað næsta vor, keypti Landakot og bjó þar meðan hann var prestur. Á prestskaparárum sínum kenndi hann mörgum skólalærdóm.

Kvaddur til að vera byskup 25. sept. 1845, fór utan s.á., vígðist í Kh. 5. júlí 1846, kom samsumars til landsins, bjó fyrst í Laugarnesi, en fekk leyfi til að flytjast til Rv. 1850, varð r. af dbr. 19. júní 1841, dbrm. 6. okt. 1853, konungkjörinn þingmaður á öllum þingum 1845–65 og á þjóðfundinum og sýndi þar í ýmsum málum meiri þjóðhollustu en aðrir konungkjörnir þingmenn, fekk lausn 23. febr. 1866 með eftirlaunum (frá 1. apríl), fór þá til Skotlands til lækninga, en árangurslaust, andaðist í Rv. eftir langvinnar þjáningar af steinsótt. Hann var gáfumaður mikill og prýðilega að sér, hafði til að vera glettinn, en var vel látinn og mikils virtur, þókti einn hinn snjallasti ræðumaður. Ritstörf: Húspostilla, Rv. 1883, auk þess einstakar ræður við einstök tækifæri (við útför Bjarna Sívertsens, Rv. 1845, Steingríms byskups Jónssonar, Rv. 1847, ræða við vígslu latínuskólans, Rv. 1846, við vígslu skírnarfonts 1839, Kh. 1876); Rauðhyrnuþáttur í Alm. hins ísl. þjóðvinafél. 1931; Rækilegar tillögur um tilhögun prestaskólans, pr. í Lovsaml. f. Isl. XIII. tillögur um veiting prestakalla, pr. sst. XIV (sjá og bréfabækur hans). Endurskoðaði 5. Mósesbók í biblíuprentun, Viðey 1841 (Rv. 1859).

Kona (21. júní 1820): Ragnheiður (f. 19. jan. 1795, d. 28. maí 1866) Stefánsdóttir amtmanns Stephensens.

Börn þeirra, er upp komust: Ástríður átti Sigurð lektor Melsteð, síra Stefán að Ofanleiti (Bessastsk.; Vitæ ord. 1820; Ræður við jarðarför hans, Rv. 1869; útfm. Kh. 1875; Bjarmi, 7. árg.; HÞ. Guðfr.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.