Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Helgi Laxdal

(5. jan. 1856–14. apríl 1918)

Bóndi.

Foreldrar: Jón skipstjóri (Grímsson) Laxdal og kona hans Elín Helgadóttir prentara í Viðey og Akureyri, Helgasonar. Bjó fyrst í Garðsvík fá ár, en frá 1884 í Tungu á Svalbarðsströnd. Dugnaðarmaður mikill, var t.d. í Garðsvík skipstjóri á hákarlaskipi. En í Tungu var hann mjög stórvirkur á umbætur allar, enda hlaut hann verðlaun úr sjóði Kristjáns níunda og tvívegis úr ræktunarsjóði. Var og framfaramaður, t. d. lét hann mjög kaupfélagsmál til sín taka og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum.

Kona: Guðný Grímsdóttir í Garðsvík.

Börn þeirra, sem upp komust: Grímur í Tungu, síðar á Gautsstöðum, Jóhannes í Tungu, Jón sst., Bernharð, Hlaðgerður, Anna (Ýmsar heimildir).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.