Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Helgi Jónsson

(– – 24. apríl 1751)

Djákn.

Foreldrar: Síra Jón Helgason í Hofsþingum í Hegranesþingi og kona hans Halldóra Runólfsdóttir, Halldórssonar. Lærði í Hólaskóla, en varð að yfirgefa skólann vegna barneignarbrots 1743, var síðan í Reykholti (hjá síra Finni Jónssyni, síðar byskupi, frænda sínum, 1744–5 og síðara hluta árs 1746), fekk uppreisn frá konungi 16. júlí 1745 til skólavistar af nýju, varð stúdent 1746, djákn á Reynistað s. á. (djáknaeiður hans 31. dec. 1746), en missti það starf vegna of bráðrar barneignar (tvíburafæðingar, annað andvana ófullburða, hitt hlaut skemmri skírn og andaðist síðan) með konu sinni, fekk brátt uppreisn og (1751) veiting fyrir Tjörn á Vatnsnesi, var kominn að vígslu, er hann andaðist á Geirmundarstöðum í Reynistaðarsókn.

Hann fær heldur leiðinlegt orð hjá samtíðarmönnum sínum.

Kona (1748): Sesselja Sveinsdóttir. Dóttir þeirra: Oddný (d. 1805) átti Jón („Siglinga-Jón “) Jónsson (Eyjólfssonar) að Hornbrekku, varð síðar miðkona Jóns málara Hallgrímssonar að Lóni, Sesselja átti Pétur Eyjólfsson að Rein í Hegranesi (sumir telja Sesselju dóttur Oddnýjar og Siglinga-Jóns).

Launsonur Helga (með Guðrúnu Helgadóttur) í skóla 1743: Helgi, tekinn í Hólaskóla 1759, andaðist þar úr bólu 1. nóv. 1762 (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.