Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Helgi Grímsson

(um 1622–2. ág. 1691)

Prestur.

Foreldrar: Síra Grímur Jónsson að Húsafelli og kona hans Engilráð Jónsdóttir á Breiðabólstað í Reykholtsdal, Loptssonar.

Hefir vafalaust lært í Skálholtsskóla, var síðan í þjónustu síra Þórðar Jónssonar í Hítardal, en því næst á 4. misseri (1651–2) sveinn Brynjólfs byskups Sveinssonar, virðist hafa vígzt 17. nóv. 1652 aðstoðarprestur föður síns, fekk prestakallið eftir hann (1654) og hélt til æviloka. Hann var mikill maður vexti og rammur að afli, vel að sér, unni mjög fornfræðum, og eru til uppskriftir hans nokkurar, merkur maður og mikils metinn. Hann fór sumarið 1664 með mági sínum, síra Birni Stefánssyni á Snæúlfsstöðum, að leita Þórisdals, og er til lýsing þeirra af þeirri för (margar uppskriftir í Lbs.; þar er og ehr. síra Helga), pr. Í „Íslendingi“, 3. árg. Hann gerði sér mjög far um að varðveita réttindi Húsafellskirkju (um skógarhögg eru bréf hans og Brynjólfs byskups Sveinssonar 1665 varðveitt í bréfabókum byskups) og gegn þeirri skoðun, að Húsafell væri leigujörð Skálholtsstóls (bréf í Húsafellsskjölum 1674 og 31. mars 1685, í Þjóðskjalasafni, þar er og skýrsla um Húsafellspresta fyrir daga hans), en svo höfðu byskupar talið (enn Brynjólfur byskup Sveinsson og jafnvel Þórður byskup Þorláksson), en Jón byskup Vídalín hallaðist að því, að jörðin væri fast prestsetur, eftir að hafa kynnt sér rök síra Helga.

Kona (1660): Guðríður (d. að Laugarvatni 14. febr. 1728, 89 ára) Stefánsdóttir prests í Nesi við Seltjörn, Hallkelssonar.

Börn þeirra: A 335 Kristín átti Jón ríka hinn yngra Jónsson að Munaðarhóli, Engilráð (d. 1746) átti fyrr Þórð Þorbjarnarson í Lundi í Þverárhlíð, síðar Pétur lögréttumann Bjarnason sst., Anna f. k. Jóns Ólafssonar í Dagverðarnesi, Guðrún (bjó í Kvíum í Þverárhlíð), óg. og bl. (HÞ.; SGrBf.; Saga Ísl. V).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.