Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Helgi Bjarnason

(um 1716–28. júlí 1753)

Prestur.

Foreldrar: Síra Bjarni Helgason í Landþingum og kona hans Ingibjörg Halldórsdóttir prests á Hjaltastöðum í Útmannasveit, Eiríkssonar. Lærði í Skálholtsskóla, stúdent 24. apríl 1738, vígðist 6. ágúst 1741 aðstoðarprestur föður síns, fekk Mosfell í Grímsnesi 1743 og fluttist þangað s.á. Á heimleið af Eyrarbakka féll hann í læk úr Hestvatni (Slauku) og andaðist þar á bakkanum; sumir segja, að hann hafi komið af prestastefnu (sem vel kann að hafa farið saman við kaupstaðarferðina) og verið þar kjörinn til prófasts í Árnesþingi; getur það og verið rétt, því að prófasturinn (síra Illugi Jónsson í Hruna) var þá nýlátinn, og hafði síra Helgi einmitt 16. júlí 1753 sókt um Hruna eftir hann.

Hann fær sæmilegan vitnisburð í skýrslum Harboes, en er þar þó talinn nokkuð rogginn. Í öðrum heimildum er hann talinn vel að sér, vel fallinn til að kenna unglingum undir skóla, enda haft hjá sér 3–4 nemendur á hverjum vetri, hinn dugmesti búsýslumaður, „prúður ærumaður“.

Kona (1743). Þórdís Marteinsdóttir að Reyðarvatni, Björnssonar.

Börn þeirra: Guðmundur á Álfsstöðum, Margrét s.k. Guðmundar sýslumanns Runólfssonar að Setbergi, Guðrún átti Einar lögréttumann Ólafsson að Galtafelli. Þórdís ekkja síra Helga átti síðar síra Gísla Andrésson, síðast að Hrepphólum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.