Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Helgi Benediktsson

(15. okt. 1759–12. mars 1820)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Benedikt (d. 1772) Einarsson að Gásum í Eyjafirði og kona hans Guðríður (d. 1784) Björnsdóttir að Hillum á Árskógsströnd, Jónssonar. F. að Glerá í Kræklingahlíð. Síra Sigurður Stefánsson í Dunhaga, síðar byskup, tók hann að sér (um 1775). kenndi honum og lét kenna. Tekinn í Hólaskóla 1782, stúdent 22. mars 1784, með mjög lofsamlegum vitnisburði, var síðan á Hellu á Árskógsströnd, varð djákn á Grenjaðarstöðum 1785, en 25. mars 1786 var lagt fyrir hann að taka prestskap á Svalbarði í Þistilsfirði, vígðist 25. júní s.á., voru þá einungis 5 bæir að nafni til byggðir í sókninni, prestsetrið nálega í eyði, kúgildi þess fallin, nema 8 ær og 1 gamalkýr; varð honum þá síra Einar Árnason í Sauðanesi mest til styrktar. Fekk 25. júlí 1791 Stærra Árskóg, fluttist þangað vorið 1792, fekk Mývatnsþing 17. apr. 1809, og bjó þar í Vogum, fekk Húsavík 6. júlí 1814 (í skiptum við síra Jón Þorsteinsson), fluttist þangað vorið 1815 og hélt til æviloka, andaðist í Saltvík.

Hann var undarlegur í háttum, og eru þjóðsagnir um hann, fátækur jafnan, vel gáfaður, skáldmæltur, og er varðveitt í handritum talsvert kveðskapar hans, mestmegnis andlegs efnis og sálmar (í Lbs.). Rímur af Remundi og Melúsínu eru honum eignaðar (Lbs.); eignaðar og Helga Bjarnasyni í Syðri Ey; síra Helgi er líkl, höf.

Kona (16. júlí 1786): Steinunn (d. 9. ág. 1816) Bergsdóttir smiðs í Hrísey, Snorrasonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Sigfús í Tröllakoti á Tjörnesi, Guðríður átti síra Guðmund Jónsson á Svalbarði, Ingibjörg átti Víglund Jónsson að Ytri Brekkum og Hallgilsstöðum á Langanesi, Helga átti launson með Jóni verzlunarstjóra Péturssyni í Húsavík, Björg (skáldmælt) f.k. Sveins Jónssonar síðast í Vatnsdalsgerði í Vopnafirði (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.