Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Haraldur Briem (Ólafsson)

(3. sept. 1841–9. febr. 1919)

Hreppstjóri.

Foreldrar: Ólafur trésmiður og skáld Briem (Gunnlaugsson) á Grund í Eyjafirði og kona hans Dómhildur Þorsteinsdóttir á Stokkahlöðum, Gíslasonar. Eftir hann ungan eru kvæði og jafnvel sagna- og leikritabrot (sjá Lbs.). Lærði fyrst trésmíðar á Akureyri, varð síðan verzlunarmaður í Eskifirði. Bjó 16 ár á Rannveigarstöðum (frá 1864), en í Búlandsnesi 1880–1900.

Dvaldist síðan með börnum sínum. Þókti fjörmaður, mikilhæfur, hjálpfús og læknir góður.

Kona (12. nóv. 1864): Þrúður (d. 20. apríl 1908, um sjötugt) Þórarinsdóttir prests að Hofi í Álptafirði, Erlendssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Guðný átti Björn alþm. R. Stefánsson, Valgerður átti Ólaf ljósmyndara Oddsson í Rv., Ólafur í Eyjum í Breiðdal, Dómhildur óg. (Óðinn XVI).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.