Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hans Wium (Jensson)

(um 1715–30. apríl 1788)

Sýslumaður.

Foreldrar: Jens sýslumaður Wium og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir, Sigfússonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1733, stúdent 1736; fór utan 1737, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 21. dec. s. á., sókti um Vestmannaeyjasýslu 10. mars 1738 og var settur sýslumaður þar s. á., er þar enn vorið 1740, til heimilis á Oddsstöðum, fekk suður- og miðhluta Múlaþings að konungsveitingu 13. apríl 1740, jafnframt því sem faðir hans fekk lausn frá þeim sýslum, fekk s. á. hálft Skriðuklaustur, en við lát Þorsteins sýslumanns Sigurðssonar fekk hann það allt; varð af óvild mikil af þessu o. fl. með honum og þeim feðgum, Þorsteini og Pétri sýslumönnum; átti og illdeilur við ýmsa aðra, t. d. lögsagnara sinn, Jón Arnórsson, er gegndi sýslustörfum hans 1769– "78. Sömdu þeir með sér 23. maí 1775, að Jón skyldi gegna öllum sýslustörfum og hafa allar tekjur sýsluhlutanna, o. fl. atriði sömdu þeir um, en sýslumaður efndi illa, svo að Jón lögsagnari varð að kæra til stiftamtmanns. Erfiðast varð honum hið alkunna Sunnifu-mál: Ung systkin, Sunnifa og Jón, áttu barn saman 1739, dæmd af lífi af Jens Wium 20. apríl 1740; Sunnifa átti aftur barn í dec. 1741, lýsti engan barnsföður, fyrr en í apríl 1742, og þá aftur Jón, bróður sinn, varð síðar tvísaga og kenndi Hans Wium sjálfum, er komið hefði sér til hins fyrra framburðar. Voru þau systkin síðan í haldi hvort á sínum stað (Jón 1743–51 hjá Sigurði sýslumanni Stefánssyni í Austur-Skaftafellssýslu, átti þar barn með dóttur sýslumanns sjálfs og annað með annarri stúlku). Stóð þetta mál yfir til 1758, Hans sýslumanni vikið frá 1752, veitti erfiðlega að fá dómara í héraði, og var loks dómnefnd sérstök skipuð 14. maí 1751, dómur þar loks kveðinn upp 28. júní 1754, Hans sýslumaður dæmdur frá embætti fyrir hirðuleysi og afglöp og í sektir miklar, en leyft að vinna synjunareið fyrir samfarir við Sunnifu, og vann hann eiðinn þá þegar; aftur var málið tekið fyrir í aukaalþingisdómi 27. ág. 1756, og viðurkenndi Jón þar faðerni hins síðara barns, en Sunnifa stóð enn fast á lýsingu sinni á sýslumann; varð sú niðurstaðan, að málið skyldi ganga til yfirdóms á alþingi 1757, en það leysti mjög úr vanda Hans sýslumanns, að Sunnifa lézt vorið 1757; í yfirdómi 11. júlí 1757 var síðan Jón dæmdur til að afhöfðast, en konungur breytti þessu 1. dec. 1758 í ævilanga þrælkun í Friðrikshafnarkastala. Hins vegar hafði Hans sýslumaður skotið dómnefndardóminum (28. júní 1754) til hæstaréttar, og var hann algerlega sýknaður þar í dómi 1. maí 1756, skyldi fá aftur embættið og sleppa hjá öllum fjárútlátum og málskostnaði. Tók hann þá sýsluna aftur og hélt til 1778, er hann fekk lausn frá embætti.

Hann bjó lengstum að Skriðuklaustri, óslitið frá 1758 (en um tíma á Eiðum). Honum er svo lýst, að hann hafi verið mikill vexti og þrekinn, harðger og óvílsamur, hvatur til hvers hlutar og allra manna orðfærastur, gefinn fyrir ölföng og þá óstýrilátur. Talsvert hefir þókt til hans koma, því að þegar til stóð, að stólsforráð á Hólum yrðu greind frá byskupsembættinu (1754–5), taldi Gísli byskup Magnússon hann hentastan manna hérlendis til stólsforáða, fyrir sakir ráðdeildar og góðs efnahags, en Hans hafði sókt um starf þetta 1754. Þess má samt geta, að bú hans hrökk ekki að öllu fyrir skuldum, er til skipta kom. Á það má benda, að hann gerði tillögu um það 1750, að stjórnin keypti hreindýr og sendi til Íslands, og varð það síðar að ráði. Hann gerði tilraun til að finna hinar fornu leiðir um norðuröræfi (um Ódáðahraun, úr Öræfum til Möðrudals o.s.frv.), en fór í handaskolum. Hann var skáldmæltur, þótt fátt liggi eftir hann, erfiljóð, ljóðabréf, skammavísa á latínu (sjá Lbs.).

Kona 1: Guðrún (d. 1771) Árnadóttir ríka á Arnheiðarstöðum, Þórðarsonar.

Börn þeirra: Evert stúdent, Níels (drukknaði í Lagarfljóti 3. febr. 1765), Jens, Gísli.

Kona 2: Una Guðmundsdóttir í Nesi í Loðmundarfirði, Oddssonar; þau bl.

Launsonur hans hét Kristján, varð úti í Reyðarfirði 24. jan. 1794 (BB. Sýsl.; HÞ.; Saga Ísl. VI).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.