Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hans Scheving (Hannesson)

(í ágúst 1754–I1. sept. 1821)

Verzlunarmaður, stúdent.

Foreldrar: Hannes Scheving klausturhaldari Hansson og kona hans Rannveig Marteinsdóttir að Burstarfelli, Björnssonar. F. að Möðruvallaklaustri. Tekinn í Hólaskóla 1768, hvarf frá námi 3 vetur, stúdent 23. apríl 1778, með tæpum meðalvitnisburði um gáfur, en miklu lofi fyrir framburð í prófpredikun og háttsemi alla, varð verzlunarmaður á Akureyri og 1786 í Hólmi (Reykjavík), vildi fá keypta verzlunina þar, er einokun var létt af, en Levetzow stiftamtmaður synjaði, með því að veð hans væri ekki nægilegt og hann brysti skilyrði til kaupskapar, enda hefði annar maður (Sunchenberg) forréttindi til kaupanna. Vann síðan að verzIunarstörfum í Rv. um hríð hjá öðrum eða jafnvel fyrir sjálfan sig, en gekk báglega, t. d. vísaði Ólafur stiftamtmaður Stefánsson honum vorið 1792 burt af Akranesi með vörur, sem hann hafði komið með úr Rv., til að selja þar, með því að slík lausaverzlun væri óleyfileg. Árið 1791 sókti hann um til stjórnarinnar 300 rd. styrk til hákarlaveiða, fekk 150 rd. lán, og mun það aldrei hafa verið endurgreitt. Fyrir 1800 var hann alfarinn úr Rv. austur á land, til frændfólks síns, lenti þar síðast á hrakningi og verðgangi, lengstum á Fljótsdalshéraði, andaðist að Rangá í Tungu, ókv. og bl. (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.