Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hannes Þorláksson

(1698–1767)

Prestur.

Foreldrar: Þorlákur sýslumaður og skáld Guðbrandsson og kona hans Helga Bjarnadóttir prests á Höskuldsstöðum, Arngrímssonar. Ólst upp með föðurforeldrum sínum (er með þeim að Ási í Vatnsdal 1703). Lærði í Skálholtsskóla, stúdent vorið 1722, en vitnisburður hans er dags. 22. okt. s. á, var síðan fyrst í Krýsuvík hjá Arngrími Bjarnasyni móðurbróður sínum, síðan (frá 1724) í Víðidalstungu hjá frænda sínum, Páli lögmanni Vídalín. Vígðist 7. apríl 1726 aðstoðarprestur síra Björns Þorsteinssonar á Staðarbakka, bjó að Skarfshóli til 1738, en á Króksstöðum 1 ár (1738–9), fekk prestakallið 14. dec. 1736, þótt síra Björn (sem sagði af sér 1735) hefði sent kærur á hann til byskups 1734. Á prestastefnu 11. júní 1744 var hann dæmdur frá prestakallinu fyrir hneykslanlegt framferði hans, drykkjuskap og deilur, fluttist frá Staðarbakka að Króksstöðum 1746, en 1747 tók síra Ormur Bjarnason á Melstað hann til aðstoðarprests, hugði síðan að láta hann gegna Kirkjuhvammssókn, en sóknarmenn þar vildu ekki þiggja þjónustu hans (1748); spannst af þessu deila nokkur, en hann hrökklaðist aftur að Króksstöðum, átti síðan deilur við síra Þorstein Pétursson á Staðarbakka, er kærði hann fyrir illmæli og jafnvel þjófnaðargrun, en þann grun sór hann fyrir, kona hans og sonur; fluttist hann þá vorið 1752 að Hurðarbaki í Vesturhópi, en er kominn að Fossi í sömu sveit 1756 og hefir líklega verið þar til æviloka; var synjað um uppreisn til prestskapar með bréfi konungs 18. febr. 1757, en skyldi fá styrk, svo sem fátækir prestar fengu eða uppgjafaprestar, og það tillag fekk hann síðan. Í skýrslum Harboes er hann talinn ekki ómenntaður maður, en skilningslaus, og fær að öðru lélegan vitnisburð, enda þókti hann illskiptinn.

Kona (1727): Sesselja (f. 1702) Gísladóttir í Valadal, Jónssonar.

Börn þeirra: Guðbrandur að Geitastekk og Hóli í Hörðudal (f. 1729, d. í Tungu í Hörðudal 26. okt. 1800), Þorlákur á Mýrum í Miðfirði, Gísli á Miklahóli í Viðvíkursveit, Guðný átti 2 launbörn, sem dóu óg. og bl., Þuríður (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.