Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hannes Árnason

(11. okt. 1809 [1812, Bessastsk. og Vitæ ord.] – 1. des. 1879)

Prestur, heimspekikennari.

Foreldrar: Árni stúdent Davíðsson í Belgsholti og kona hans Þóra Jónsdóttir prests að Mosfelli í Mosfellssveit, Hannessonar. F. í Belgsholti. Lærði hjá Stefáni sýslumanni Gunnlaugssyni og síra Benedikt Jónassyni á Melum.

Tekinn í Bessastaðaskóla 1831, stúdent 1837 með góðum vitnisburði, tók 1. og 2. lærdómspróf í háskólanum í Kh. 1837–8, með 2. einkunn, varð vegna fátæktar að sinna kennslu úti í sveitum 2 ár og leiðbeindi mörgum þeim, sem próf tóku í heimspeki, fekk loks tíma til að sinna guðfræði til fulls 1844, tók sérstakt próf þar í hebresku 1844 (einkunn admissus = 2. eink.) og guðfræðapróf 12. júlí 1847, með 2. einkunn lakari. Stundaði eftir það kennslu um tíma. Fekk Staðastað 18. maí 1848, vígðist 5. nóv. s. á., en var settur til að kenna náttúrufræði í Reykjavíkurskóla og jafnframt heimspeki í prestaskólanum þá um haustið, hafði því aðstoðarprest vestra þá um veturinn, fór þangað um vorið, en sagði þar af sér prestskap s. á. Tók síðan aftur við sömu störfum, fekk heimspekikennaraembættið 14. maí 1850 og hélt áfram náttúrufræðakennslu, fekk lausn frá embætti 26. sept. 1876. Eftirrit kennslubóka hans má finna í Lbs. Hann gaf eigur sínar til styrktar heimspekilegum vísindum á Íslandi.

Kona (1848): Louisa Georgine Karoline Andrea Anthon (f. 26. júní 1815, d. 11. okt. 1868); þau bl. (Bessastsk.; HÞ. Guðfr.; Vitæ ord. 1848; Óðinn VIII; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.