Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hannes Sigurðsson

(1708–25. sept. 1752)

Prestur.

Foreldrar: Sigurður lögréttumaður Hannesson að Brekku í Þingi og kona hans Guðrún Jónsdóttir, Jörundssonar. Lærði í Hólaskóla, stúdent 1728, var síðan í þjónustu Jóhanns sýslumanns Gottrups, og að tilstilli hans fekk hann Þingeyraklausturprestakall 1735, vígðist 6. mars s. á, fekk eignarjörð hans, Giljá, til ábúðar í fardögum 1737, en brátt kom þó misklíð mikil upp í milli þeirra, enda hafði prestur um 1738 vísað Sigríði Salómonsdóttur, bústýru sýslumanns, vestur til manns síns; vildi sýslumaður fá hann burt af jörðunni 1739, og gekk það í málastappi, bar jafnvel presti og konu hans á brýn, að þau væru völd að dauða Sumarliða Klemenssonar. Kærði prestur þetta, en ekki virðist hafa orðið meira úr. Fluttist prestur að Steinnesi 1740, fekk Auðkúlu 1747 og hélt til æviloka.

Í skýrslum Harboes fær hann mikið lof.

Kona (1736): Helga Jónsdóttir lögréttumanns að Öxnakeldu, Ólafssonar; þau bl.

Hún átti síðar síra Ásmund Pálsson að Auðkúlu (HÞ.; SgrGf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.