Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hannes Scheving (Lárusson)

(24, júlí 1694–-1. maí 1726)

Sýslumaður.

Foreldrar: Lárus sýslumaður Scheving (Hansson) að Möðruvallaklaustri og f.k. hans Þórunn Þorleifsdóttir lögmanns, Kortssonar. Settist í Hólaskóla 1708, stúdent 1712, var heima veturinn 1712–13, en að Hólum veturinn 1713–14 og heyrari þar veturinn 1714–15, ráðsmaður stólsins 1715, vorið 1716 kvaddi faðir hans hann sér til aðstoðar í sýslustörfum, setti bú að Arnbjargarbrekku í Hörgárdal vorið 1717, en 1718 á Bakka, vorið 1720 að Urðum, en 1724 að Munkaþverárklaustri og var þar til æviloka. Settur sýslumaður í Vaðlaþingi 21. júlí 1721, fekk veiting konungs fyrir sýslunni 13. apríl 1722 og hélt til æviloka, hálft Munkaþverárklaustur 23. júlí 1722 og hélt sömuleiðis til æviloka. Hann keypti Espihól 1726 og hugðist að setjast þar að um vorið, en andlát hans teppti þá ráðagerð. Bæði faðir hans, hann sjálfur og vandamenn hans, eftir lát hans, reyndu mjög til að klófesta eitthvað af auði móðurbróður hans, Guðmundar í Brokey, en ekki tókst það. Hann var talinn manna fríðastur sýnum, stakt valmenni, enda ástsæll maður.

Hann orkti erfiljóð eftir Benedikt sýslumann Bech (í Lbs. 1255, 8vo.). Ritgerð eftir hann um fyrstu erfð lögbókar er til í Lbs.

Kona (2. okt. 1718, kaupmáli 20. okt. 1717): Jórunn (f. 1699, d. 7. nóv. 1776) Steinsdóttir byskups, Jónssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Þórunn (f. 28. ág. 1718, í milli kaups og festa) átti fyrr Jón klausturhaldara Vigfússon á Reynistað, síðar síra Jón Steingrímsson síðast á Prestsbakka, Jón stúdent, Lárus klausturhaldari síðast í Garði í Aðaldal.

Jórunn ekkja Hannesar átti síðar síra Stefán Einarsson í Laufási, er verið hafið sveinn hans og síðan ráðsmaður hennar; hafði Hannes sagt það fyrir, og þókti mannamunur að ásýndum, því að Stefán var manna ófríðastur sýnum (BB. Sýsl.; HÞ.; Saga Ísl. VI).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.