Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hannes Scheving (Lárusson)

(2. ágúst 1748–6. mars 1826)

Prestur. „

Foreldrar: Lárus Scheving (Hannesson) klausturhaldari síðast í Garði í Aðaldal og kona hans Anna Björnsdóttir prests á Grenjaðarstöðum, Magnússonar. F. að Urðum. Tekinn í Hólaskóla 1768, varð stúdent 10. maí 1772, með heldur góðum vitnisburði, var síðan hjá foreldrum sínum, vígðist 7. maí 1775 aðstoðarprestur síra Hallgríms Eldjárnssonar á Grenjaðarstöðum, fekk Helgastaði 2. júní 1781, hafði og umboð á hálfu Munkaþverárklaustri (eftir lát föður síns) 1784–T, fekk Laufás 27. febr. 1797, Grenjaðarstaði 21. dec. 1812 og hélt til æviloka. Varð. aðstoðarprófastur í Þingeyjarþingi 1796, en skipaður að fullu prófastur þar 12. apríl 1804 og hélt því starfi til æviloka. Hann hlaut mikið lof byskupa fyrir kennimannshæfileika sína, dugnað og ráðdeild, enda var hann búhöldur mikill, verkmaður ágætur sjálfur og hagsýnn, hýsti stórmannlega staði þá, er hann sat, hins vegar var hann og hinn prúðasti maður, stilltur í skapi, örlátur og því mikils virtur og ástsæll.

Kona (3. okt. 1775): Snjólaug (f. 28. sept. 1748, d. 11. júní 1814) Hallgrímsdóttir prests á Grenjaðarstöðum, Eldjárnssonar.

Börn þeirra: Lárus stúdent, Hallgrímur yfirkennari, Ólöf s.k. síra Stefáns Einarssonar í Sauðanesi (HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.