Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hannes Bjarnason

(1776 [14. jan. 1777, Vita] – 9. nóv. 1838)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Bjarni Eiríksson í Djúpadal í Skagafirði og kona hans Sigríður Jónsdóttir prests í Saurbæ í Eyjafirði, Sigfússonar. Tekinn í Hólaskóla 1794, stúdent 1801, var síðan fyrst í Djúpadal, en bjó eftir það fyrst í Brekkukoti, þá í Hringveri, síðan á Frostastöðum, en að Hofi á Höfðaströnd 1808–11, eftir það í Kýrholti (Vita: Kílholti). Hann var ráðinn aðstoðarprestur síra Björns Jónssonar í Bólstaðarhlíð 1818, en rifti þeim samningi og færði til ástæður í bréfi til byskups 30. jan. 1819, fekk Ríp 4. maí 1829, vígðist 12. júlí s. á. og hélt til æviloka. Var fjörmaður mikill, snar nokkuð og kerskinn, gestrisinn og manna örlátastur. Hann var skáldmæltur vel, en nokkuð níðskár og gamansamur, en þó erfðu menn lítt við hann (um kveðskap hans sjá Lbs.). Rímur eru eftir hann og eru þessar prentaðar: Ríma af Íslendingaköppum (í Fróðlegu ljóðasafni, Ak. 1857), Rímur af Skanderbey Epirótakappa, Ak. 1861, Rímur af Hálfdani gamla og sonum hans, Rv. 1878, með Gísla Konráðssyni: Rímur af Andra jarli (1.–9. og 12.–13. r.), Viðey 1834, Bessast. 1905 (eru og allar í hdr. í Lbs.); óprentaðar í handritum í Lbs.: Rímur af Theseus Aþenumannakappa, með Gísla Konráðssyni: Rímur af Haka og Hagbarði. Í Lbs. er og í handriti eftir hann (1804) þýðing á síðara hluta siðalærdóms Péturs Hanssens.

Kona (1801): Sigríður (d. 1863) Jónsdóttir í Dunhaga.

Börn þeirra: Guðmundur á Úlfsstöðum, Bjarni að Hofi í Skagafjarðardölum, Hannes (drukknaði í Kolbeinsárósi), Þuríður f. k. Gottskálks Erlendssonar að Geirmundarhólum, Sigríður átti Þorlák Jónsson á Yztu Grund, Filippía átti fyrr Björn Ólafsson í Egildarholti, en síðar Markús Árnason í Brennigerði (hún andaðist í Manitoba 1908), María átti Magnús á Seylu Magnússon prests í Glaumbæ, Magnússonar (Vitæ ord. 1829; H.Þ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.