Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hannes Arnórsson

(1800 [um 1798 samkv. Vita]. –18. des. 1851)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Síra Arnór Jónsson í Vatnsfirði og fyrri kona hans Sigríður Sveinsdóttir næturvarðar, Jónssonar. F. á Indriðastöðum í Skorradal. Nam skólalærdóm hjá föður sínum, en varð stúdent úr heimaskóla í Bessastaðaskóla 1820, var 2 ár verzlunarmaður í Stykkishólmi hjá Boga Benediktssyni, vígðist 13. okt. 1824 aðstoðarprestur síra Þórðar Þorsteinssonar í Ögurþingum (segist þá í Vita vera 26 ára), var næsta vetur í Vatnsfirði, en fluttist 1825 að Garðsstöðum, en 1826 að Ögri, fluttist til föður síns að Vatnsfirði samkvæmt byskupsleyfi 10. febr. 1829 og var aðstoðarprestur hans 1829–41, var 2–3 ár í Vatnsfirði, en bjó síðan í Svansvík, fekk Stað í Grunnavík 13. marz 1841, fluttist þangað um vorið og hélt til æviloka, drukknaði á heimleið úr kaupstaðarferð. Hann var vel að sér og skáldmæltur (2 kvæði prentuð eftir hann í Klausturpósti, en talsvert í handritum í Lbs.), raddmaður góður, hvers manns hugljúfi, lágur maður vexti, en knár og glímumaður góður. Honum var meinað ráðahags við Solveigu Bogadóttur, Benediktssonar, vegna fátæktar hans; telja kunnugir menn það hafa leitt hann til drykkjuskapar, og kvað svo rammt að þessum lesti, að því vildu sóknarmenn í Ögurþingum ekki hafa hann, og fór hann þá til föður síns.

Kona 1 (2. júlí 1824): Þórunn (f. 8. sept. 1797, d. úr holdsveiki 1. maí 1842) Jónsdóttir prests og prófasts í Hvammi (síðar á Breiðabólstað á Skógarströnd), Gíslasonar.

Börn þeirra, er upp komust: Sæunn átti Halldór Jónsson í Sútarabúðum, Arnór á Sandeyri og Höfðaströnd í Grunnavík, Sigríður átti fyrr Bæring Jónsson á Marðareyri, síðar Kristján bróður hans.

Kona 2 (20. júní 1845): Guðrún (f ., 30. apr. 1822) Sigurðardóttir á Seljalandi, Henrikssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Jóhannes skipstjóri og hreppstjóri í Botni og á Suðureyri í Súgandafirði, Sigurður varð stýrimaður, d. í Kh. ókv. og bl.

Guðrún ekkja hans átti síðar Friðrik Verner á Suðureyri (Vitæ ord. 1824; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.