Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hallgrímur Thorlacius (Jónsson)

(um 1679– í okt. 1736)

Sýslumaður.

Foreldrar: Jón sýslumaður Þorláksson í Berufirði og kona hans Sesselja Hallgrímsdóttir prests í Glaumbæ, Jónssonar. Lærði í Skálholtsskóla, mun hafa orðið stúdent 1699, virðist hafa verið í þjónustu Björns byskups Þorleifssonar 1699–1702, en er 1703 í Berufirði með foreldrum sínum, var aftur í þjónustu Björns byskups 1703– 7, fekk vonarbréf fyrir Odda 29. nóv. 1701, en afsalaði sér því í hendur síra Björns, bróður síns, 19. júlí 1709, og var það vitanlega að engu haft, fór utan 1707, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 3. des. s. á., fekk konungsbréf fyrir rektorsembætti að Hólum 3. febr. 1708, kom til landsins s. á. og tók við rektorsstörfum um haustið, en sagði af sér 28. marz 1T11, enda átti hann þá barn í vonum (með Halldóru Þorláksdóttur prests í Glæsibæ, Sigfússonar, fæddist það andvana í ágúst 1711, en móðirin lézt í sama mánuði af barnsburðinum; er þá mælt, að önnur kona (Guðrún „sól“ Aradóttir á Sökku, Jónssonar) hafi brugðið heiti við hann, en hann þá orkt hina alkunnu vísu: „Virtu það ekki mér til meins“, og varð hún að áhrínsorðum.

Fekk Hallgrímur síðan (1711) sýslupart þann, er faðir hans hafði haft, suðurhluta Múlaþings, veiting fyrir honum við lát föður síns (1712), konungsstaðfesting 1714, gegndi alþingisskrifarastörfum 1723, hafði byskupstíundaumboð í sýsluparti sínum, en Jóni byskupi Árnasyni þókti hann standa illa í skilum og tók það af honum.

Hann andaðist í Berunesi. Honum var eftir lát hans veitt Austur-Skaftafellssýsla 3. júní 1737.

Hann var maður vel að sér og 19* mætur maður um margt, þókti nokkuð kvenhollur, sem þeir bræður. Hann var skemmtilega skáldmæltur (sjá Lbs.), og má nefna dæmi þess: Rostungsvísur, Króksbrag eða Krókskvæði, Grýlukvæði o. fl., prentuð munu hafa verið eftir hann (á latínu) í Kh. 1707 minningarljóð eftir Jón konrektor Einarsson.

Kona: Gróa (enn á lífi 1742) Árnadóttir prests í Heydölum, Álfssonar.

Börn þeirra: Jón var í Skálholtsskóla 1740–3, vísað burt vegna tornæmis, bjó í Berunesi, Vigfús var og í Skálholtsskóla (1740–4), andaðist um það bil sem hann skyldi verða stúdent, þókti manna efnilegastur, Sesselja átti Bjarna lögréttumann Einarsson, Elín s. kona síra Einars Jónssonar í Kaldaðarnesi, Guðrún, Þrúður d. bl. 2. apr. 1794 (Saga Ísl. VI; BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.