Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hallgrímur Thorlacius (Einarsson)

(25. júlí 1760–25. jan. 1846)

Prestur.

Foreldrar: Síra Einar Jónsson, síðast í Kaldaðarnesi, og s. k. hans Elín Hallgrímsdóttir sýslumanns Thorlaciuss. F. að Berufirði. Tekinn í Skálholtsskóla 1772, stúdent 20. apr. 1780, með því skilyrði, að hann héldi áfram bóknámi af alefli, vígðist 30. nóv. 1783 aðstoðarprestur bróðursonar síns, síra Einars B. Thorlaciuss á Grenjaðarstöðum, degi síðar en síra Einar andaðist, og gegndi prestsverkum þar til vors 1787, tók þá við Miklagarði, sem hann hafði fengið að veitingu 8. okt. 1786, og hélt það prestakall til æviloka, en hélt aðstoðarprest frá 1826, var karlægur síðustu ár ævinnar. Hann þókti kennimaður daufur, og eru til háðvísur um það, en búhöldur var hann ágætur og varð sterkefnaður maður. Hann var kappsamur, fylginn sér, óvarkár og átti því mál við ýmsa, var jafnvel vikið frá um tíma 1810 (af „gimbrarmáli“, sem kallað var), en með því að hann var sýknaður í landsyfirdómi 1811 (hlaut þar einungis sekt), féll afsetningin niður, en óvildarmál hans og Stefáns amtmanns Þórarinssonar komst til hæstaréttar, og var prestur þar sýknaður með dómi 2. febr. 1816. Enn 11. júní þóktist Steingrímur byskup Jónsson þurfa að setja ofan í við hann fyrir storkunaryrði um prófast sinn. Hann var samhaldssamur og manna hófsamastur, en þó gestrisinn og góðgerðasamur við fátæklinga.

Kona (6. febr. 1784): Ólöf (f. í sept. 1755, d. 8. jan. 1815) Hallgrímsdóttir prests á Grenjaðarstöðum, Eldjárnssonar.

Börn þeirra: Síra Einar í Saurbæ, síra Hallgrímur að Hrafnagili, Elín lengi bústýra föður síns, óg. og bl., Sesselja átti síra Jörgen Kröyer að Möðruvallaklaustri (Vitæ ord.; HÞ.: Blanda IV; Alm. þjóðvinafél. 1924; SGrBI).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.