Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hallgrímur Pétursson

(um 1614–27. okt. 1674)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Pétur hringjari á Hólum (enn á lífi 1657) Guðmundsson, Fljótaumboðsmanns í Gröf á Höfðaströnd, Hallgrímssonar (þeir Guðbrandur byskup Þorláksson og Pétur hringjari bræðrasynir), og kona hans, sem nefnd er Solveig Jónsdóttir. Ólst upp að Hólum, komst í skólann þar, en þókti óstýrilátur, var látinn fara ut„ an, til að nema iðn nokkura, fyrst til Glúckstadt, en í Kh. kynntist Brynjólfur, síðar byskup, Sveinsson honum, og var hann þá hjá járnsmið eða kolakaupmanni; hefir þetta verið eftir komu Brynjólfs til Kh. í annað sinn (haustið 1632); kom hann honum í Maríuskóla (Frúarskóla í Kh.); var hann kominn í efsta bekk þar 1636, var fenginn veturinn 1636–T til að segja til Íslendingum, er hernumnir höfðu verið af Algierbúum 1627, síðan leystir út með fé og komu nú loks til Kh. Þar á meðal var kona, Guðríður Símonardóttir (f. um 1598, d. 18. des. 1682), er gift hafði verið í Vestmannaeyjum Eyjólfi Sólmundarsyni (d. 1636). Fekk Hallgrímur þegar ást á henni og fór með henni heim til Íslands 1637, en s. á. átti hann barn með henni (sakeyrisreikningar Gullbringusýslu 1637–8), og áttust þau nokkuru síðar.

Dvaldist hann þessi ár í Njarðvíkum og vann algenga vinnu (JGrv. Coll. segir þau hafa búið að Baulufæti, „sem er hrakkot“, og hann telur í Hvalfirði; mun þetta missögn og átt við Bolafót, sem var hjáleiga frá Ytri Njarðvík); vígðist 1644 að Hvalsnesþingum, fekk Saurbæ á Hvalfjarðarströnd 1651, lét að öllu af prestskap í fardögum 1669 vegna veikinda (holdsveiki). Þar brunnu bæjarhús sumarið 1662, og sýnir það dugnað hans, að hann hafði komið þeim öllum upp fyrir haustið. Einnig endurreisti hann á sinn kostnað kirkju þar og átti lengi fé inni hjá kirkjunni.

Hann hefir jafnan verið talinn hið mesta trúarljóðaskáld Íslendinga. Passíusálmar hans (fyrst pr. á Hólum 1666) hafa komið út eigi sjaldnar en 52 sinnum, auk þess þýddir (eða kaflar úr þeim) á ýmsar tungur, Hallgrímskver („Sálmar og kvæði“) 13 sinnum árin 1755–1890, Samúelssálmar (aftur í 2. bók er eftir hann), pr. á Hólum 1747, sálmar eftir hann í öllum sálmabókum, kvæði hans í 2 bindum pr. í Rv. 1887–90, kvæði í Ísl. gátur, skemmt. og þulur II1–IV, ópr. í handritum eru eftir hann Krókarefsrímur, síðari hluti rímna af Flóres og Leo. Hann var vel að sér í fornfræði og fornum kveðskap, og eru til í handriti skýringar hans í þeirri grein. Guðsorðabækur eftir hann: „Diarium Christianum“ (Dagleg iðkun), kom út 6 sinnum (1680–1773). „Sjö guðrækilegar umþenkingar“, pr. 9 sinnum (1677–1905, Minningarræða um Árna lögm. Oddsson í Lbs. 92, 8vo. Hann var mikill maður vexti og eigi ásjálegur. Fluttist fyrst frá Saurbæ að Kalastöðum, þaðan að Ferstiklu og andaðist þar. Af börnum hans og Guðríðar komst einungis 1 upp: Eyjólfur á Ferstiklu (d. 1679), og eru ættir frá honum (ævis. eftir síra Vigfús Jónsson í Hítardal, pr. framan við sum Hallgrímskver, Gestur Vestfirðingur 5. árg.; Alm. þjóðvinafél. 1914; Arne Möller: H. P. Passionssalmer, Kh. 1922; Vigfús Guðmundsson: Ævisaga, Rv. 1934; Saga Ísl. V; JGrv. Coll.; sjá og Sálmar og kvæði I, Rv. 1887–90; HÞ. o. m. fl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.