Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hallgrímur Jónsson

(8. mars 1833–22. janúar 1903)

. Hreppstjóri, dbrm. Foreldrar: Jón (d. 10. apríl 1835) Jónsson í Geitareyjum á Breiðafirði og kona hans Salóme (d. 19. júlí 1858) Oddsdóttir í Stóru-Tungu á Fellsströnd, Arngrímssonar.

Bóndi í Gvendareyjum á Breiðafirði 1864–73, en síðan á Staðarfelli á Fellsströnd til æviloka. Stjórnsamur og sat jörð sína ágætlega. Byggði Staðarfellskirkju (bændakirkju) að nýju og vandaði svo smíði hennar og gerð, að fágætt var í þá daga. Lengi hreppstjóri og átti sæti í sýslunefnd. Dannebrogsmaður. Kona (11. okt. 1862): Valgerður (d. 9. febr. 1898, 70 ára) Jónsdóttir á Hallsteinsnesi í Gufudalssveit, Arnfinnsonar; hún átti áður Vigfús Bjarnason Thorarensen.

Sonur Hallgríms og hennar: Vigfús Thorarensen var um skeið veitingamaður í Stykkishólmi. Sonur Hallgríms (með Ingibjörgu Marísdóttur): Sylveríus gagnfræðingur í Reykjavík (Fjallkonan XVI {leiðrétt villa þar}; kirkjubækur).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.