Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hallgrímur Jónsson

(16. sept. 1811 [1812, Vitæ]–5. janúar 1880)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Þorsteinsson, síðast í Kirkjubæ í Tungu, og kona hans Þuríður Hallgrímsdóttir að Ljósavatni, Þorlákssonar. F. í Húsavík. Lærði hjá föður sínum og síra Sveini Níelssyni, er þá var djákn að Grenjaðarstöðum, (ekki nefndur í Vitæ), tekinn í Bessastaðaskóla 1832 (var óreglulegur nemandi þar 1 ár áður), stúdent 1835, með mjög góðum vitnisburði, hafði þá um veturinn á afmælishátíð Friðriks sjötta (28. jan.) flutt erindi á latínu í skólanum („De quibus rebus cognitio acquiri possit et quem in finem sit acquirenda“), og sendi byskup skólastjórnarráði síðan danska þýðing ræðunnar. Var heima 1 vetur. Fór utan 1836, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. s. á., tók síðara lærdómspróf 1837, próf í hebresku 1838 og embættispróf í guðfræði 8. júlí 1840, öll með 1. einkunn, fekk 6. nóv. 1840 (konungsstaðfesting 7. apr. 1841) Hólma í Reyðarfirði, vígðist 18. apr. 1841 og hélt til æviloka, varð prófastur í Suður-Múlasýslu 29. apr. 1847, sagði því starfi af sér 1862, fekk 26. júní 1854 Reykjavíkurprestakall, en afsalaði sér því og fekk leyfi til að vera kyrr að Hólmum 10. sept. s. á. Var þjóðfundarfulltrúi Suður-Múlasýslu 1851.

Kona (3. okt. 1840): Kristrún (f. 31. ág. 1806, d. 29. sept. 1881) Jónsdóttir prests á Grenjaðarstöðum, Jónssonar.

Börn þeirra: Þorgerður átti Valdimar Chr. B. Olivarius, síðast bæjarfógeta í Rönne í Borgundarhólmi, Tómas læknir og kennari í læknaskólanum í Rv., Kristrún Þuríður átti Jón sýslumann Ásmundsson Johnsen í Eskifirði, síra Jónas Pétur á Kolfreyjustað. (Bessastsk.; Vitæ ord. 1841; HÞ. Guðfr.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.