Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hallgrímur Eldjárnsson

(1. ág. 1723–12. apr. 1779)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Síra Eldjárn Jónsson að Möðruvallaklaustri og kona hans Þórvör Egilsdóttir prests í Glaumbæ, Sigfússonar. F. að Stóru Brekku.

Ólst frá 1730 upp hjá síra Þorsteini Ketilssyni að Hrafnagili, tekinn í Hólaskóla 1739, stúdent 28. maí 1744, varð 3. júní s. á. djákn að Munkaþverá, fór utan næsta ár, skráðurí stúdentatölu í háskólanum í Kh. 16. des. 1745, lauk embættisprófi í guðfræði 21. apr. 1746, með 3. einkunn, kom s. á. til landsins, var næsta vetur hjá fóstra sínum að Hrafnagili, setti bú í Kristnesi vorið 1747, vígðist 20. jan. 1748 aðstoðarprestur fóstra síns og jafnframt skipaður honum til aðstoðar í prófastsstörfum, fekk 1751 Bægisá, varð fullkominn prófastur í Vaðlaþingi 1753, fekk Hrafnagil 1754, en fluttist þangað ekki, fekk 1768 Laufás (að amtmannsveitingu) og fluttist þangað það vor, en 30. maí s. á. fekk hann Grenjaðarstaði að konungsveitingu, fluttist þangað í sept. s. á. og var þar til æviloka. Hann var vel gefinn maður, en nokkuð afskiptasamur, hamaðist mjög gegn hrossakjötsáti. Hann orkti margt, bæði sálma og kvæði (sjá Lbs.), og er kunnast „Dúðadurtskvæði“ og „Tíðavísur“; í útfm. Magnúsar amtm. Gíslasonar, Kh. 1778, er pr. eftir hann kvæðið „Vökulúður“.

Kona (26. okt. 1747); Ólöf (d. 1757) Jónsdóttir prests á Völlum í Svarfaðardal, Halldórssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Eldjárn stúdent, Snjálaug átti síra Hannes Lárusson Scheving á Grenjaðarstöðum, síra Jón að Þingmúla, síra Þorsteinn í Stærra Árskógi, Ólöf átti síra Hallgrím Thorlacius Einarsson í Miklagarði. (Vitæ ord.; HÞ. Guðfr.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.