Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Halldór Þorbergsson

(um 1623–1711)

Lögréttumaður.

Hann var sonur Þorbergs sýslumanns Hrólfssonar á Seylu (með Geirdísi Halldórsdóttur). Tekinn til fósturs af f. k. Þorbergs og var síðan með s. k. hans, en Þorbergur var bl. með þeim báðum. Varð lögréttumaður 1653, kom síðast á alþingi 1690. Var við og við lögsagnari Benedikts sýslumanns Halldórssonar. Bjó á Seylu, síðar á Miðgrund, Egildarholti, en um 1698 átti hann heima í Vík í Sæmundarhlíð.

Skömmu síðar skaut Björn byskup Þorleifsson skjólshúsi yfir hann, er hann var þrotinn orðinn að fé, og var hann síðan að Hólum til æviloka. Talinn fróður maður og skýr. Enginn búhöldur og í kvenhollara lagi.

Eftir hann eru árbækur, Seyluannáll (pr. í Ann. Bmf.). Smágreinir eru eftir hann í handritum (byskuparaðir og Jónsbókarskýringar).

Kona 1: Vigdís Ólafsdóttir prests í Miklabæ, Jónssonar.

Börn þeirra: Halldóra átti Skúla Ólafsson á Seylu, Björg átti Jón lögsagnara TIugason að Spákonufelli, Helga átti Þórarin Þorláksson í Garði, Guðrún átti Einar nokkurn.

Kona 2 (raunar óvíst, að þau hafi verið gefin saman, og þá þó eftir að þau höfðu átt börn saman, nokkuru eftir að þau voru tekin í guðsþakkarskyni að Hólum): Ingiríður (f. 1676, svo að með þeim hjónum var 53 ára aldursmunur) Ingimundardóttir. Synir þeirra: Síra Jón á Völlum og líkl. Hallgrímur skáld að Steini og Páll á Árvelli á Kjalarnesi. Óskilgetnar dætur Halldórs eru enn fremur taldar: Gunnvör átti Þórð Þorláksson (bróður Þórarins, mágs hennar), Helga átti Jón Sigurðsson að Balaskarði. (Ann. Bmf. I; Saga Ísl. V; BB. Sýsl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.