Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Halldór Ólafsson

(– –8. júlí 1638)

Lögmaður.

Foreldrar: Ólafur klausturhaldari Jónsson á Möðruvöllum og kona hans Þórunn Benediktsdóttir sýslumanns hins ríka á Möðruvöllum, Halldórssonar. Fekk vonarbréf fyrir Möðruvallaklaustri 24. febr. 1608, eftir föður sinn (hið fyrsta vonarbréf frá konungi til Íslands í veraldlegri sýslu). Kjörinn lögmaður á alþingi 1619, og voru 3 aðrir í lögmannskjörum (kosningarbréfið dags. 30. júní 1619, staðfestingarbréf frá konungi 1l. maí 1622), fekk s. á. Hegranesþing, var vikið frá þeirri sýslu vegna skulda 1628, og gegndi þá sýslustörfum 1 ár Jón, sonur Jóns lögmanns Sigurðssonar á Reynistað, en 1629 heppnaðist Benedikt, syni Halldórs lögmanns, með aðstoð Gísla lögmanns Hákonarsonar, að losa um skuldirnar og útvega honum sýsluna aftur, en honum var aftur vikið frá sýslunni 1636, og gegndi þá Eggert Jónsson á Ökrum sýslustörfum 1 ár, en Benedikt, sonur lögmanns, tók til fulls við henni 1637. Halldór lögmaður veiktist (af steinsótt) eftir alþingi 1837 og var sjúkur þaðan af, en var þó á alþingi 1638, var fluttur þaðan á kviktrjám í Skálholt og andaðist þar. Hann var vandaður maður og vel látinn, drykkfelldur nokkuð. Hann átti jarðeignir miklar, en var oft í fjárþröng og skuldaði mjög verzIunarfélaginu.

Kona (1606). Halldóra eldri (d. 1661) Jónsdóttir sýslumanns á Grund, Björnssonar.

Börn þeirra: Benedikt sýslum. á Seylu, Margrét átti Brynjólf byskup Sveinsson, Hallgrímur á Víðimýri, Jón ráðsmaður í Skálholti, Helga átti síra Pál Björnsson í Selárdal, Guðrún átti Vigfús Jónsson í Lögmannshlíð, Sigríður átti síra Torfa Jónsson í Gaulverjabæ, Valgerður átti Guðmund lögréttumann Torfason að Keldum (Saga Ísl. V; Safn II; BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.