Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Halldór Sigurðsson

(um 1700–12. febr. 1759)

Prestur.

Foreldrar: Sigurður Þórðarson (prests að Myrká, Sigfússonar) og kona hans Guðrún Jónsdóttir (Sigfússonar lögréttumanns að Öxnahóli, Ólafssonar). Ólst upp hjá síra Gísla Sigurðssyni að Kvennabrekku, sem átti föðursystur hans. Tekinn í Skálholtsskóla 1713, stúdent 1722, var og veturinn 1722–3 í Skálholti, líkl. til meira náms, og fekk góðan vitnisburð frá byskupi, varð síðan ráðsmaður Helgu Eggertsdóttur í Brokey, enda hafði hann verið þar sumarið 1722, og kvæntist síðar fósturdóttur hennar, bjó síðar á Keisbakka á Skógarströnd, er þar 1735, fekk Staðarhraun 1745 (hefir líkl. vígzt 15. ág. s. á.) og hélt til æviloka, fekk raunar Reynivöllu 25. sept. 1758, en komst aldrei þangað. Finnur byskup Jónsson hefir um hann mjög lofsamleg ummæli í öllum greinum. Hann var vel efnaður maður.

Kona: Valgerður (d. 1735) Tómasdóttir á Þingvöllum í Helgafellssveit, Péturssonar.

Fekk hann konungsleyfi 7. maí 1728 til þess að kvongast henni, og var þá í Brokey, en það bar til, að hún hafði áður átt laundóttur með Guðmundi stúdent Lýðssyni (Þóru, er átti Eggert lögréttumann Sveinsson klausturhaldara að Munkaþverá, Torfasonar). Dætur þeirra síra Halldórs: Rósa átti fyrst launson með Jóni Jakobssyni, síðar sýslumanni að Espihóli (og var það Gísli, er síðar varð prestur og merkismaður í Noregi, sjá hann), síðan átti hún launson (Sigfús, er fór utan 1785) með Halldóri Eiríkssyni (föðurbróður Jóns Jakobssonar), síðast giftist hún Jóni Ólafssyni, sem var verzlunarmaður í Grundarfirði og Stykkishólmi. Önnur dóttir þeirra síra Halldórs var Helga, sem átti Ísleif stúdent og Skálholtsráðsmann Halldórsson í Haukadal (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.