Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Halldór Pálsson yngri

(um 1652–1733)

Prestur.

Foreldrar: Síra Páll Björnsson í Selárdal og kona hans Helga Halldórsdóttir lögmanns Ólafssonar.

Lærði í Skálholtsskóla, fekk 30. apr. 1674 vonarbréf frá konungi fyrir Selárdal, eftir föður sinn, vígðist 2. nóv. 1679 aðstoðarprestur föður síns, fekk prestakallið eftir hann 1706 og hélt því til æviloka (um mánaðamótin ágúst–september 1733). Hann var kjörinn prófastur í Barðastrandarsýslu 1708, í móti ráðum Jóns byskups Vídalíns, frænda síns, en var dæmdur frá því starfi í prestastefnu á alþingi 1711, enda var hann maður óeirinn, drykkfelldur og átti sífelldar erjur við ýmsa menn, jafnvel byskup sjálfan, en í erfiljóðum um hann (í JS. 416, 8vo) segir, að hann hafi orðið fyrir óverðskulduðu aðkasti, og víst er, að stórbrotinn maður hefir hann verið.

Kona (1684). Ingibjörg (f. 1655, d. 19. nóv. 1707) Magnúsdóttir sýslumanns á Eyri, Magnússonar.

Börn þeirra: Björn stúdent á Sveinseyri, Ólöf, sem líkl. hefir dáið í bólunni miklu 1707 (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.