Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Halldór Pálsson

(í mars 1700–9. apríl 1749)

Prestur.

Foreldrar: Páll sýslumaður Marteinsson að Eiðum og kona hans Kristín Eiríksdóttir prests í Kirkjubæ í Tungu, Ólafssonar.

Ólst upp hjá Katli stúdent Björnssyni að Eiðum, sem átti föðursystur hans og kostaði hann til náms erlendis. Tekinn í Skálholtsskóla 1713, stúdent 1719, fór utan 1722, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 19. nóv. 1722, lauk embættisprófi í guðfræði 7. júní 1725, með 1. einkunn, fekk Breiðabólstað í Fljótshlíð að konungsveitingu 16. apr. 1728, vígðist 14. nóv. s. á. og hélt til æviloka. Í skýrslum Harboes er hann fyrir lærdómssakir talinn mörgum líklegri til byskupsefnis, ef hann hneigðist ekki stundum of mjög til drykkju.

Kona (1732). Sigríður (f. 26. okt. 1709, d. 13. sept. 1796) Ísleifsdóttir sýslumanns að Felli, Einarssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Ísleifur stúdent og ráðsmaður í Skálholti, Kristín átti Steindór sýslumann Finnsson að Oddgeirshólum (HÞ. Guðfr.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.