Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Halldór Magnússon

(11. apríl 1775–22. dec. 1836)

Prestur.

Foreldrar: Magnús sýslumaður Gíslason að Geitaskarði og kona hans Helga Halldórsdóttir kirkjuprests að Hólum, Jónssonar. Eftir lát föður síns var hann tekinn af Ólafi stiftamtmanni Stefánssyni, og kenndi hann honum sjálfur, tekinn í Reykjavíkurskóla eldra 1793, stúdent 25. maí 1797, missti skömmu síðar s. á. rétt til prestskapar vegna of bráðrar barneignar með konu sinni, fekk uppreisn 17. nóv. s.á., fluttist að Barkarstöðum í Fljótshlíð til svila síns, síra Sæmundar Hálfdanarsonar, varð djákn á Breiðabólstað í Fljótshlíð 6. sept. 1798 og settist að vorið eftir í Árnagerði, en missti það starf, með því að Sveini lækni Pálssyni voru lagðir djáknapeningarnir 4. okt. 1799, en í þess stað var hann skipaður djákn í Hítardal 1801, en hann fluttist ekki þangað, bjó kyrr í Árnagerði, en í Háakoti frá 1805, fekk Keldnaþing 30. okt. 1811, vígðist 9. dec. s.á., bjó þar að Stotalæk (Stokkalæk) frá 1812, fekk Saurbæ á Hvalfjarðarströnd 23. dec. 1825, fluttist þangað vorið eftir og var þar til æviloka. Hann varð úti á ferð upp í Svínadal. Hann var mjög hár vexti og karlmenni til burða, í meðallagi gefinn, en kennimaður góður og vel látinn.

Kona (1. júní 1797): Guðrún (f. 30. júlí 1774, d. 19. dec. 1858) Arngrímsdóttir prests á Melum, Jónssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Síra Jón eldri á Breiðabólstað í Fljótshlíð, Magnús að Bjargi í Rv., Ragnhildur átti Sæmund trésmið Guðmundsson (prests á Staðastað, Jónssonar), Jón yngri að Búrfelli og víðar (Vitæ ord. 1811; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.