Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Halldór Jónsson

(25. ág. 1723–26. sept. 1769)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Halldórsson, síðast á Völlum í Svarfaðardal, og 1. kona hans Helga Rafnsdóttir að Reistará, Þorkelssonar. F. í Melanesi. Var tekinn til fósturs 3 ára gamall af síra Eyjólfi Jónssyni á Völlum, fór utan 1738 og var í Maríuskóla í Kh. næsta vetur, kom aftur til landsins 1739, lærði eftir það hjá síra Eyjólfi, fóstra sínum, var tekinn í Hólaskóla 1744, stúdent 1746, varð 4. dec. s. á. djákn á Þingeyrum, vígðist prestur að Þingeyraklaustri 17. nóv. 1748, fekk Reynistaðarprestakall 1751 og bjó í Vík, varð prófastur í Hegranesþingi 24. nóv. 1758 og hélt því starfi til æviloka. 11. júní 1759 varð hann dómkirkjuprestur á Hólum, og var það einnig til dauðadags. Hann var manna gervilegastur sýnum, merkur maður og vel látinn. Ritstörf eru ekki eftir hann (en minnisgreinar hans um embættisverk hans eru í eftirriti aftan við Presbyterologia Hálfdanar rektors Einarssonar). Nafnagiftamál kom upp í Reynistaðarprestakalli á prestsárum hans þar; var þar þá djákn síra Jón Steingrímsson, síðast á Prestsbakka, og getur 261 þessa í ævisögu sinni.

Kona hans (1752): Salvör (f. 1715, d. 10. júní 1771) Þórðardóttir prests á Staðastað, Jónssonar.

Hún átti heima í Vík, og því tók hann Reynistaðarklaustur og settist að í Vík. Af börnum þeirra komst upp einungis Helga, sem átti Magnús sýslumann Gíslason að Geitaskarði (Vitæ ord.; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.