Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Halldór Jónsson

(10. sept. 1808–14. júlí 1888)

Prestur.

Sonur Jóns Þorleifssonar að Kleifum í Gilsfirði og Halldóru Ólafsdóttur prests í Hvítadal, Gíslasonar. Lærði lítið eitt hjá síra Friðrik Jónssyni á Stað á Reykjanesi og síðan 3 ár hjá síra Arnóri Jónssyni í Vatnsfirði, tekinn í Bessastaðaskóla 1827, stúdent 1832, með heldur góðum vitnisburði. Var síðan með foreldrum sínum, en þau höfðu búið saman um hríð, setti bú að Kleifum 1834. Vígðist 27. maí 1838 aðstoðarprestur síra Björns Hjálmarssonar í Tröllatungu, fekk það prestakall 18. ágúst 1847, við uppgjöf hans (hafði fengið Stað á Snæfjallaströnd 5. maí 1843, en afþakkað), fekk þar lausn frá prestskap 20. jan. 1886, fluttist um vorið að Hlíðarseli og andaðist þar. Var orðlagt valmenni.

Kona (18. ág. 1834): Oddfríður (f. 25. maí 1813, d. 14. júlí 1900) Gísladóttir hreppstjóra í Þorpum, Eiríkssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Halldóra átti Jón Jónsson að Tindi, Sigríður átti Hjálmar í Heiðarbæ Jónsson (aðstoðarprests í Tröllatungu, Björnssonar), Jóhanna átti Eyjólf að Múla í Gilsfirði, Bjarnason (prests í Garpsdal, Eggertssonar) (Bessastsk.; Vitæ ord. 1838; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.