Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Halldór Hjálmarsson

(1745–1805)

Konrektor.

Foreldrar: Hjálmar lögréttumaður Erlendsson, síðast að Keldum í Mosfellssveit, og kona hans Filippía Pálsdóttir prests að Upsum, Bjarnasonar. Ólst upp hjá móðurbróður sínum, síra Benedikt Pálssyni, síðast á Stað á Reykjanesi. Tekinn í Hólaskóla 1759, stúdent 1764, og var talinn af Gísli byskupi Magnússyni einn hinna fremstu, er stúdentar hafi orðið í byskupstíð hans. Var síðar nokkur ár skrifari og kennari hjá Ólafi Stefánssyni, síðar stiftamtmanni, varð konrektor (heyrari) að Hólum 1773, bjó í Hvammi í Hjaltadal, en frá 1792 í Hofstaðaseli, var settur rektor í Hólaskóla 1785–89, en síðan aftur konrektor, hafði þó stundum aðra til að gegna kennslustörfum fyrir sig, vegna heilsuleysis, og algerlega árin 1797–1802, er skólinn var að fullu lagður niður. Eftir hann eru í handritum kennslubækur handa skólanemöndum hans (Almenn kirkjusaga á latínu, þýðing á Nepos, latnesk málfræði, ÍB. 400, 403, 406, 4to., 132, Svo.), latneskt kvæði (G„Somnium Aglai“ í ÍB. 717, Svo.), dagbókarbrot (ÍB. 692, 8vo.), almanök með minnisgreinum innan um önnur efni (Lbs. 951, 8vo.). Hann var og hinn natnasti maður að hirða um handrit Hólastóls, sem handritasöfn landsins bera með sér. Hann var talinn manna bezt að sér og hinn ljúfasti maður; því undarlegra er, að hann skyldi aldrei fá prestakall, þótt hann sækti nokkurum sinnum.

Kona (19. febr. 1772): Guðrún Jónsdóttir að Heinabergi, Gunnarssonar., Dóttir þeirra: Ingigerður átti síra Gísla Jónsson í Stærra Árskógi (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.