Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Halldór Hallsson

(5. júní 1690–26. mars 1770)

Prestur.

Foreldrar: Síra Hallur Ólafsson í Grímstungum og kona hans Helga Oddsdóttir á Fitjum, Eiríkssonar. Tekinn í Hólaskóla 1705, stúdent 1712, var síðan með foreldrum sínum, en gekk 1713 í þjónustu Odds lögmanns Sigurðssonar, og veitti hann honum 18. dec. 1716 Breiðabólstað í Vesturhópi (staðfesting konungs 29. apríl 1718), en hann vígðist 21. mars 1717, og hélt prestakallið til æviloka, þótt hann ætti barn of snemma með konu sinni 1735, enda fekk hann leyfi amtmanns til þess að halda það, til þess er hann fengi uppreisn, og var hún veitt honum 18. jan. 1737. Hann hélt aðstoðarpresta frá 1757. Harboe segir í skýrslum sínum, að hann sé ekki illa að sér, en gefur í skyn, að hann neyti ekki vitsmuna sinna á réttan hátt, sé hirðulítill og sagður drykkfelldur. Hann var hraustmenni og talinn með fríðustu mönnum, málsnjall og raddmaður ágætur, enda kunni vel söng, kennimaður góður, bar skyn á lækningar, góður minna háttar mönnum, en skapstór og harður í mannraunum. Hann átti deilur við ýmsa menn, t.d. Jóhann sýslumann Gottrup, síra Þorstein Pétursson á Staðarbakka, en einkum Pál lögmann Vídalín. Eftir hann er í handriti ritgerð um höfunda hinnar postullegu trúarjátningar (ÍB. 400, 4to.), sálmur (3 erindi) í Lbs. 39, 8vo.

Kona (1735): Þuríður (f. 1705, d. 1781) Sveinsdóttir lögréttumanns að Þóreyjarnúpi, Guðnasonar.

Börn þeirra, er upp komust: Jón (andaðist í Hólaskóla 1770), Hildur átti síra Jón Jónsson á Hafsteinsstöðum, Ingibjörg átti fyrr síra Magnús Jónsson, aðstoðarprest föður síns, síðar Samson skáld Sigurðsson í Klömbur og víðar. Launsonur síra Halldórs er í öllum heimildum talinn síra Pétur Björnsson að Tjörn á Vatnsnesi (Vísnakver Páls Vídalíns, Kh. 1897; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.