Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Halldór Brynjólfsson

(15. apríl 1692–22. okt. 1752)

Byskup.

Foreldrar: Brynjólfur lögréttumaður Ásmundsson að Saurum í Helgafellssveit og Ingjaldshóli og kona hans Vilborg Árnadóttir prests í Vestmannaeyjum, Kláussonar.

Lærði í Hólaskóla, stúdent 1715, fór utan sama sumar, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 24. okt. s.á., lauk 9. júní 1716 embættisprófi í guðfræði, með 3. einkunn, fekk Útskála 20. júlí 1716, vígðist 15. nóv. s.á. og þjónaði jafnframt Hvalsnesi, fekk Staðastað 7. jan. 1736, varð prófastur í Snæfellsnessýslu 25. ág. 1738, var utanlands 1740–1 og vildi fá Hólabyskupsdæmi; ekki varð af veitingu þess þá, en 19. júlí 1745 var hann að boði konungs kvaddur utan og fekk 18. mars 1746 byskupsdæmið, vígðist 25. mars s. á., kom til landsins um sumarið, tók við stólnum um haustið, fór utan haustið 1752, að leita sér lækninga við hálsmeini og krabbameini í tungunni, en andaðist á skipinu í Eyrarsundi og var jarðsunginn frá Maríukirkju í Kh. 2. nóv. 1752. Þýddi: Pontoppidan: „Sannleiki guðshræðslunnar“, Kh. 1741 (þókti heldur gallað kver og því nefnt „Rangi-Ponti“); enn fremur Hatton: „Lítið ágrip um þær fjórar species“, Hól. 1746; lét endurprenta (Hól. 1748) vísnabók Guðbrands byskups („Sú gamla vísnabók“). Í handriti (Lbs. 842, 8Svo.): „Undirbúningur til þeirrar heilögu kvöldmáltíðar“ eftir P. Du Moulin. Hann virðist hafa verið dugnaðarmaður, en þó örlátur, og Jón byskup Árnason segir um hann, að hann sé talinn með lærðustu prestum, góður kennimaður og siðsamur; hann fekkst við lækningar, blóðtökur o. fl., meðan hann var prestur. Hann var hagmæltur (sjá Lbs.). Sagnir nokkurar hafa varðveitzt um hann og benda á gamansamlega raupsemi. Hann gerði 27. sept. 1739 tillögu um að stofna barnaskóla á Snæfellsnesi, er haldið væri uppi með 1% hlut af hverju skipi í sýslunni (líkl. 1 dag vertíðar). Við svila sinn Skúla Magnússon, síðar landfógeta, átti hann deilur vegna ráðsmennsku Skúla á Hólastól árin 1741–6.

Kona (1. nóv. 1725): Þóra (f. 1705, d. 27. sept. 1762), dóttir Björns Thorlaciusar, prófasts að Görðum á Álptanesi.

Börn þeirra: Brynjólfur gullsmiður á Þrastarstöðum, Páll klausturhaldari, síðast í Syðri Ey, síra Snæbjörn í Grímstungum, Björn Thorlacius kaupmaður í Húsavík, Þórunn átti Jón stúdent Thorlacius að Stóra Núpi, Vilborg átti fyrst launbarn (með Guðna Sveinssyni), giftist síðan Beinteini lögréttumanni Ingimundarsyni á Breiðabólstað í Ölfusi, Elín átti 2 launbörn (fyrst með Eiríki stúdent Laxdal, síðar með Jóni Bergssyni), Gróa (átti 2 launbörn, sem dóu ung), Þrúður átti Jón Bjarnason í Fremra Gufudal (bl.), Margrét s. k. síra Gísla Snorrasonar í Odda. Það reynist þjóðsaga, að Skúli, svili hans, Magnússon hafi átt barn með konu hans í vígsluför hans, því að hún var þá á Staðastað.

En fleipur finnst um annað faðerni (JH. Bysk.; HÞ. Guðfr.; HÞ.; Saga Ísl. VI).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.