Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hafliði Markússon

(um 1809–4. mars 1890)

Bóndi.

Foreldrar: Síra Markús Sigurðsson að Mosfelli í Mosfellssveit og s. k. hans Elín Jónsdóttir. Talinn hafa orðið stúdent (úr heimaskóla) 1833, og er lengi nefndur stúdent í sóknamanntölum, en ekki er til stúdentsskírteini hans í venjulegum þess háttar söfnum.

Bjó hokurbúskap í Hlaðgerðarkoti og síðar parti úr Helgafelli í Mosfellssveit, fluttist síðan í Árnesþing, bjó fyrst í Torfastaðakoti í Byskupstungum, en síðast í Jaðarkoti í Villingaholtshreppi til æviloka.

Kona (1840). Sigurlaug Sigurðardóttir stúdents í Varmahlíð, Jónssonar.

Börn þeirra nokkur dreifðust um þær slóðir (Kirkjubækur; Lbs. 394, 4to.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.