Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Andrés Gíslason

(26. júlí 1760 [1759, Vitæ ord.] –18. mars 1799)

Prestur.

Foreldrar: Síra Gísli Andrésson að Hrepphólum og kona hans Þórdís Marteinsdóttir að Reyðarvatni, Björnssonar. F. að Mosfelli í Grímsnesi. Skömmu eftir lát föður síns fór hann að Setbergi við Hafnarfjörð, til Guðmundar sýslumanns Runólfssonar, sem átti hálfsystur hans, og var þar talinn til heimilis 6 ár (1774–80). Lærði 4 vetur undir skóla hjá síra Þorleifi Bjarnasyni í Reykholti. Var tekinn í Skálholtsskóla 1779. Var síðan um hríð á skólaárum sínum hjá mági sínum, Birni jarðyrkjumanni Björnssyni í Stóru Sandvík í Flóa og síðar í Viðey hjá Skúla landfógeta eða þeim feðgum og að Lágafelli; var í Arnarbæli í Ölfusi veturinn 1783, hjá síra Gísla Magnússyni, en varð stúdent 4. dec. 1784. Fluttist því næst (1785) að Haga á Barðaströnd og var skrifari hjá Bjarna sýslumanni Einarssyni (1785–8), og síðar hjá Oddi sýslumanni Vídalín. Fyrir hann var lagt 19. sept. 1787 að taka prestskap á Refsstöðum í Vopnafirði, en hann neitaði því með bréfi 8. nóv. s. á. Bauð þá stiftamtmaður honum harðlega 10. sept. 1788 að fara austur og taka við prestakallinu og sendi honum aftur veitingarbréfið. Ekki varð þó af því. Hann átti (1789) barn með Guðrúnu Einarsdóttur bónda á Hreggstöðum, Jónssonar hrekks í Æðey, og dó það s.á. Fekk uppreisn (20. jan. 1792). Vígðist 13. ág. 1797 aðstoðarprestur síra Þorkels Guðnasonar í Flatey og settist að veturinn eftir í Svefneyjum, en varð að láta af prestskap eftir eitt ár, með því að hann sýktist af holdsveiki.

Fluttist aftur að Haga og andaðist þar, ókv. (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.