Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Friðrik Þórarinsson

(um 12. júlí 1763–10. febr. 1817)

Prestur.

Foreldrar: Þórarinn sýslumaður Jónsson á Grund og kona hans Sigríður Stefánsdóttir prests á Höskuldsstöðum, Ólafssonar. F. á Grund. Ólst eftir lát föður síns (1767) upp hjá Elínu, móðursystur sinni, og manni hennar, síra Bjarna Jónssyni á Breiðabólstað í Vesturhópi, lærði undir skóla hjá síra Pétri Björnssyni að Tjörn á Vatnsnesi, tekinn í Hólaskóla 1779, stúdent 1785 frá Halldóri konrektor Hjálmarssyni, fór utan s.á., skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 30. sept. 1786, með 2. einkunn, stundaði guðfræði, en kom aftur til landsins 1789, vígðist 1. nóv. s.á. aðstoðarprestur fóstra síns á Breiðabólstað, var fyrst þar, en síðan 4 ár í Víðidalstungu, skipaður 12. maí 1794 varaprófastur í Húnavatnsþingi, um líkt leyti lét fóstri hans af prestskap, og fekk hann þá prestakallið 21. júlí 1794, en fluttist að Breiðabólstað frá Víðidalstungu 1795, og hélt til dauðadags. Hann var hógvær maður og siðprúður, raddmaður mikill og orðlagður að því leyti, og kunni vel söng, meiri auðmaður en gáfumaður.

Kona (28. júlí 1790): Hólmfríður (f. 1767, d. 1. okt. 1819) Jónsdóttir varalögmanns í Víðidalstungu, Ólafssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Bjarni stúdent að Stóra Ósi, Þorbjörg d. óg. og bl. 6. jan. 1819, Sigríður átti Árna Björnsson að Hörghóli, Jón stúdent í Víðidalstungu, Elín d. óg. og bl. á Möðruvöllum 31. mars 1821, Þórunn átti Jón Guðmundsson að Hörghóli, Ragnheiður átti Davíð Davíðsson í Hvarfi (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.