Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Friðrik Jónsson

(27. apr. 1794 [1793, Vita]––30. júlí 1840)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Þorvarðsson, síðast á Breiðabólstað í Vesturhópi, og kona hans Helga Jónsdóttir í Reykjahlíð, Einarssonar. F. á Svalbarði í Þistilsfirði. Lærði fyrst hjá föður sínum, en síðan í heimaskóla hjá síra Páli Hjálmarssyni á Stað á Reykjanesi, sem veitti honum stúdentsvottorð 1814. Var síðan hjá foreldrum sínum, en fór aftur að Stað 1816, vígðist aðstoðarprestur síra Páls 11. mars 1818, hafði búið í móti honum á Stað frá 1817, en fluttist að Brandsstöðum 1819, settur prófastur í Barðastrandarsýslu 15. maí 1827, skipaður 8. mars 1828, fekk Stað 2. febr. 1830, er síra Páll sleppti, fluttist þangað um vorið og hélt til dauðadags.

Hann drukknaði í Kongavökum í Þorskafirði, drukkinn.

Hann var lítill vexti, en knár, vel gefinn og vel að sér, hafði mjúkan söngróm og var allgóður ræðumaður, gestrisinn og góðmenni að náttúru og var því ástsæll af sóknarfólki sínu, en gerðist drykkfelldur með aldrinum og sýndi þá oft af sér úlfúð og illyrti menn. Hann stóð vel í prófastsstöðu sinni.

Kona (24. júní 1817): Valgerður (f. 1798, d. 1867) Pálsdóttir prests á Stað á Reykjanesi, Hjálmarssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Páll var skrifari hjá sýslumönnunum Árna Þorsteinssyni í Krossnesi og Boga Thorarensen að Staðarfelli, bjó síðar í fátækt í Vogi á Fellsströnd og á Ormsstöðum, andaðist að Kvennahóli 5. apr. 1888, vel gefinn maður, en drykkfelldur, Ingibjörg átti Eirík Sveinsson á Hamralandi, síðar í Miðjanesi, fór síðar til Vesturheims, d. í Mountain, N.-Dak., 5. sept. 1904, Halldór trésmiður, kallaði sig Reykjalín, d. í Mountain 20. júlí 1905, Sigríður átti Bjarna Eiríksson í Hamarlandi, Sofía átti Eggert Magnússon Vatnsdal, og fluttust þau til Vesturheims, d. í Vatnsdal í Sask., Valgerður óg., átti launson, Þóra Friðrika, d. óg. og bl. á Stað í Steingrímsfirði 4. ágúst 1858, Jóhann „ bókbindari, drukknaði 6. júní 1865, Hjálmar trésmiður að Fossá á Hjarðarnesi, fór til Vesturheims, d. 1896 (Vitæ ord. 1818; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.