Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Friðrik Eggerz (Eggertsson)

(25. mars 1802 [1801, Vita] – 23. apríl 1894)

Prestur.

Foreldrar: Síra Eggert Jónsson að Ballará og kona hans Guðrún Magnúsdóttir sýslumanns í Búðardal, Ketilssonar. F. að Ballará. Lærði hjá föður sínum og 2 ár hjá síra Arnóri Jónssyni í Vatnsfirði, stúdent úr heimaskóla frá Geir byskupi Vídalín 30. júní 1823, talinn í vitnisburðinum hafa farsælar gáfur og hneigður einkum til smíða, var í Stafholti 1824–6, vígðist 25. júní 1826 aðstoðarprestur föður síns og hélt því starfi til 1846, bjó í Búðardal frá 1828, í Hvalgröfum frá 1844, í Akureyjum frá 1851.

Hann var embættislaus til 6. apríl 1859, er hann fekk Skarðsþing, hélt það prestakall til 1872, er hann lét af prestskap, en hafði haldið aðstoðarprest (síra Odd Hallgrímsson) frá 1861. Fluttist hann þá aftur að Hvalgröfum, og þar andaðist hann. Hann var þrekinn maður og hinn höfðinglegasti, hraustmenni til burða, söngmaður allgóður, en þókti stirður til predikana, fróðleiksmaður mikill og hefir tínt saman og skrifað upp ýmsan alþýðlegan og sögulegan fróðleik, þótt nota verði með varúð það, er hann hefir skráð um samtímamenn sína (sjá Lbs.), enda sístarfandi, hirðumaður mikill um skjöl (sjá bréfabækur og bréfasöfn hans í Lbs.); fjáraflamaður mikill og harðdrægur, er því var að skipta, málafylgjumaður mikill og átti lengstum málaferli við ýmsa, langrækinn og brá samt aldrei skapi, tryggur og ráðhollur vinum sínum, manna fastlyndastur og nokkuð hjátrúarfullur. Hann var kosinn þingmaður Snæfellinga 1852, en sat aldrei á alþingi.

Ritstörf (á prenti): Um jarðamötin..., Rv. 1865; Gjörðarmálið, Rv. 1883; Um villur og aflaganir, Rv. 1892; Lítil ádrepa -s. Rv. 1893; Ritgjörð um hegninguna í helvíti, Rv. 1894. 21

Kona (10. júlí 1824): Arndís (d. 24. maí 1864) Pétursdóttir prests í Stafholti, Péturssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Sigþrúður s.k. Jóns dómsforseta Péturssonar, Pétur forstöðumaður Borðeyrarfélagsins og kaupmaður, Guðrún s. k. Rögnvalds gullsmiðs Sigmundssonar í Fagradal innra, Elinborg átti fyrr Pál alþingismann Vídalín í Víðidalstungu, en síðar síra Benedikt Kristjánsson í Múla (Vitæ ord. 1826; Sunnanfari XIII; Kirkjubl., 4. árg.; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.