Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Finnur Magnússon (í dönskum ritum: Finn Magnusen)

(27. ág. 1781–24. dec. 1847)

Leyndarskjalavörður.

Foreldrar: Magnús lögmaður Ólafsson að Meðalfelli og kona hans Ragnheiður Finnsdóttir byskups, Jónssonar, Fæddist í Skálholti og ólst upp þar og að Meðalfelli, lærði hjá Hannesi byskupi, móðurbróður sínum, stúdent 1797 úr heimaskóla frá Geir byskup Vídalín, fór utan sama haust, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 5. maí 1798, með 1. einkunn (28. apr. s. á.), lauk síðan 2. lærdómsprófi 6. okt. s.á. og 22. apr. 1799, með 1. einkunn í fyrra hluta þess (málfræðil.), 2. einkunn í síðara hluta (heimspekil.), hugði að læra lögfræði, var á Íslandi sumarið 1799, varð stipendiarius í Árnasafni, en missti það, enda nokkuð óreglusamur um þetta bil, kom til landsins 1801, var um hríð ýmist með móður sinni eða Geir byskupi, varð 1803 skrifstofumaður hjá Rasmus land- og bæjarfógeta Frydensberg, skipaður 30. apr. 1806 málflutningsmaður í landsyfirdómi, settur bæjarfógeti 1806, í fjarveru Frydenbergs. Jörgen Jörgensen bauð honum ýmis mikilsháttar embætti, meðan uppþot hans stóð, en hann vildi ekki við taka, og auglýsti Jörgensen þá 6. ág. 1809, að Finnur væri óhæfur til starfa í þjónustu landsins, en eftir fall Jörgensens tók hann við sínu fyrra starfi, fór utan 1812, var mánuð í Skotlandi og fór þaðan til Kh. og tók að sinna fornritafræði; naut hann til þess stuðnings ýmissa merkra manna, einkum Jóhanns Búölows (sem kenndur er við Sanderumgaard), varð 28. sept. 1815 prófessor að nafnbót, en 10. apríl 1819 var honum falið að flytja erindi í háskólanum og listaháskólanum um fornbókmenntir og goðafræði Norðurlanda, varð 24. sept. 1823 aðstoðarmaður í leyndarskjalasafninu, en 10. apr. 1829 forstöðumaður þess, varð 1. nóv. 1828 r. af dbr., dbrm. 28. okt. 1836, s.á. Dr. phil. hon. c. í Greifsvald, 10. júní 1839 etatsráð, r. af st. Önnu orðu rússn. 1843, heiðursfélagi í grúa vísindafélaga víðs vegar um lönd; var 1816 kvaddur í nefnd að sjá um varðveizlu danskra fornminja, 1822 í Árnasjóðsnefnd, skrifari hennar frá 1829, skrifari Kh.-deildar bókmenntafélags 1816–19, síðan ýmist forseti þess eða varaforseti til 1831 (er deilurnar urðu með þeim C. C. Rafn og Baldvin Einarssyni), og loks forseti 1839 til dauðadags; varaforseti fornfræðafélags og í ritnefnd þess frá 1828, fulltrúi Íslands á stéttaþingum 1835–6, 1838, 1840 og 1842, falin frá 1830 þýðing lagaboða á íslenzku, einnig þýðing Almanaks frá 1837. Hann var mjög starfsamur og hefir ritað fjölda bóka og ritgerða um ýmsar greinir Íslenzkra fræða á ýmsum tungum, en flest er það úrelt, með því að hugmyndaflugið skyggði oft á dómgreindina. Merkast mun talið Eddalæren, Kh. 1824–6 (sjá ella bókaskrár). Ritgerð hans, Runamo og Runerne, Kh. 1841, olli miklum árásum á hann og dró til hnekkis. Hann hefir og orkt talsvert, bæði prentað og óprentað (sjá bókaskrár og Lbs.), t.d. rímur af Pétri Pors. Hann var öðlingur og mannvinur. Hann var jafnan stórskuldugur, ekki sízt vegna eyðslu konu sinnar, og neyddist því til að selja í 3 slumpum handrit til bókasafna á Bretlandi, sum af þeim nokkuð merk.

Kona (6. nóv. 1821): Nikolína Barbara Frydensberg (dóttir Fr. landfógeta); þau skildu 1836 að ósk hennar, og hafði hún lengi verið biluð að heilsu og geði; þau bl. (Ný félagsrit; Bricka; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.