Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Finnur Jónsson

(um 1760–21. sept. 1807)

Sýslumaður.

Foreldrar: Jón byskup Teitsson og s. k. hans Margrét Finnsdóttir byskups, Jónssonar. Lærði fyrst hjá föður sínum, fór utan 1773 til skólanáms, kom aftur 1777 og lærði veturinn 1777–8 hjá Hannesi byskupi, móðurbróður sínum, fór utan 1778 og var þá stúdent úr heimaskóla í Kaupmannahöfn frá Einari Thorlacius (Bjarnasyni), síðar presti á Grenjaðarstöðum. Skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 27. janúar 1779, með 2. einkunn, lauk prófi í heimspeki í júlí 1781; faðir hans vildi láta hann læra guðfræði, en hann sjálfur vildi leggja fyrir sig lögfræði, og varð lítið af námi. Kom til landsins 1784, leysti þá móðurfaðir hans hann út, fór utan aftur 1785, komst í varðhald vegna skulda, en móðurfaðir hans lét leysa hann út aftur, og kom hann aftur til landsins 1788. Var um hríð eftir það með móður sinni, settur sýslumaður í Snæfellsnessýslu 1792, en 1793 í Borgarfjarðarsýslu og fekk veiting fyrir sýslunni 28. maí 1794; bjó hann þar í Bæ. Fekk 1797 Snæfellsnessýslu, í skiptum við Jón Espólín; bjó hann þar á Sveinsstöðum, hýsti þar vel og gekk vel búskapur. Var í Kh. frá því í sept. 1801, til þess í sept. 1802.

Vikið frá embætti 27. nóv. 1804; drógu til þessa kærur og skuldir miklar við konungsféhirzlu; var hann síðan dæmdur frá embætti. Hann drukknaði í Grafará á Höfðaströnd, er hann hugðist að fara utan og kæra dóminn fyrir hæstarétti. Hann þókti vel viti borinn, en mjög ómerkur, hirðulítill og drykkfelldur. Í Gamni og alvöru eru taldar eftir hann tvær útleggingar (EBj. Frmt.).

Kona (7. júlí 1797). Úlfdís (d. 16. dec. 1815) Jónsdóttir í Botni í Hvalfirði, Ísleifssonar; þau bl. Launsonur Finns (með Kristínu Markúsdóttur): Kristján á Melaleiti (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.