Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Finnur Jónsson

(16. jan. 1704–23. júlí 1789)

Byskup.

Foreldrar: Síra Jón Halldórsson í Hítardal og kona hans Sigríður Björnsdóttir prests á Snæúlfsstöðum, Stefánssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1722 (lætur Jón byskup mikið af gáfum hans í bréfi til föður hans 12. apr. 1723), stúdent 1723, var 10 síðan 2 ár hjá foreldrum sínum, fór utan 1725, skráður í stúdentatölu 30. okt. 1725, fekk vist í Ehlerskollegium 1726, lauk prófi í guðfræði 8. mars 1728, með 1. einkunn, kom til landsins 1729 og dvaldist hjá föður sínum, til þess er hann fekk Reykholt 11. febr. 1732, vígðist 24. s.m., skipaður 26. apríl s.á. prófastur í Borgarfjarðarsýslu, fekkst ekki til að sækja um Hólabyskupsdæmi 1740 og barði við sjúkleika, settur officialis 14. febr. 1743 og gegndi byskupsembætti í Skálholti til 1747. Kvaddur 11. maí 1753 til byskups að Hólum, fór utan samsumars og neitaði þessu, var síðan 8. mars 1754 kvaddur til byskups í Skálholti, og mótmælti þó að taka að sér innstæðu stólsins og ráðsmennsku, enda vildi hann vera kyrr í Reykholti, vígðist 28. apr. s. á. og kom til landsins 5. júlí s. á. Hlaut doktorsnafnbót í guðfræði 1. nóv. 1774, fyrstur Íslendinga. Fekk 12. mars 1777 Hannes, son sinn, sér til aðstoðar í byskupsstörfum, lét af embætti algerlega 1785, andaðist í Skálholti. Hann var einn hinn hirðusamasti maður í embættisrekstri, gætti vel meðalhófs í byskupsstjórn, tók vægt á smámunum og jafnaði oft í kyrrþey, en um hin stærri brot tók hann fast í taumana, en þó aldrei hranalega. Ritstörf: „Historia ecclesiastica Islandiæ“, 4 bd., Kh. 1772–8, 4to.; „Conspectus status ecclesiastici Islandiæ“, Kh. 1779, 8vo.; „Tractatus... de noctis prædie naturali prærogativa aut dubia aut nulla“, Kh. 1782, 8Svo.; ritgerð (,Sciagraphia horologii“) aftan við Rímbeglu 1780 og 1781; þýddi á latínu Lilju Eysteins Ásgrímssonar (Hist. eccl. Isl. IT; sérprentun, Kh. 1773).

Ævisögurnar um Íslendinga í Giessings „Jubillærere“ eru eftir hann. Auk þess liggur talsvert eftir hann í handritum óprentað (sjá Lbs.), og er þetta helzt: Nafnabók biblíunnar; Orðabók nýjatestamentis; Athugasemdir við helgisiðabók (á dönsku); Skýringar á guðspjöllum; Frumvarp að messusöng; Ritgerð um kristniboð á Íslandi (á lat.); Ritgerð um aukatekjur presta; Ritgerð um tíundargerð; Ritgerð um skattfrelsi embættismanna; Ritgerð um leigukúgildi; Ágrip um kristinrétt (á lat.); Ritgerð um Bergþórsstatútu („Anatome Bergthoriana“), „Om Faaresygen“ (eignað honum); Ferðasaga 1725 frá Íslandi til Glúckstad; Athugasemdir við þýðing Halldórs byskups Brynjólfssonar. á Ponta; Ritgerð um eyktamörk; Athugasemdir við ritgerð síra Vigfúsar, bróður hans, „Cento“; Athugasemdir við ævisögu síra Hallgríms Péturssonar eftir sama; Athugasemdir við Stjörnu-Oddatal; Ritgerð um tímatal í fornsögum (er og í Ny kgl. Saml.); Fornþættir (ættartölur); Ævisögur Sturlunga (á lat.); Ævisögur merkisklerka; Viðaukar við byskupasögur föður hans; Annálar.

Kona (27. sept. 1733): Guðríður (f. 9. mars 1707, d. 21. febr. 1766) Gísladóttir lögréttumanns í Mávahlíð, Jónssonar.

Börn þeirra: Margrét átti Jón byskup Teitsson, síra Halldór í Hítardal, síra Jón í Hruna, Hannes byskup, Steindór sýslumaður að Oddgeirshólum, Ragnheiður átti Magnús lögmann Ólafsson að Meðalfelli (Ættartal og ævis., Kh. 1792; JH. Bps. I; Saga Ísl. VI; HÞ. Guðfr.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.