Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Finnbogi Jónsson

(15. og 16. öld)

Lögmaður norðan og vestan 1484–1508.

Foreldrar: Síra Jón Maríuskáld Pálsson á Grenjaðarstöðum og Þórunn Finnbogadóttir hins gamla að Ási, Jónssonar. Hélt lengi Þingeyjarþing, um tíma Múla í Reykjadal (hafði hirðstjóraumboð 1504–6), kemur mjög við mál manna og varð auðmaður. Bjó að Ási í Kelduhverfi. Virðist enn lífs 1514.

Kona (1467): Málmfríður Torfadóttir, hirðstjóra, Arasonar.

Börn þeirra: Þorsteinn sýslumaður í Reykjahlíð, Sigurður sýslumaður í Hegranesþingi, Jón príor á Möðruvöllum, síra Jón að Laufási (sumst. talinn launsonur hans, en hefir verið skírgetinn), Kristín átti Sigurð lögréttumann á Víðimýri Þorleifsson (bróður Teits lögmanns), Guðríður átti fyrst Svein Sumarliðason, Eiríkssonar, en síðar Guttorm Nikulásson (bróður Gottskálks byskups), er bjó á Grund, meðan hún lifði, en síðar var lögmaður í Björgvin, Guðlaug átti Sturlu sýslumann Þórðarson að Staðarfelli, Torfi (Dipl. Isl.; Ann bmf.; Safn 1; BB. Sýsl.; SD. Lögm.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.