Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eymundur Jónsson (skírður Meyvant, en kastaði því nafni)

(23. dec. 1840–1927)

Smiður.

Foreldrar: Jón Höskuldsson að Hofi í Öræfum og kona hans Sigríður Jónsdóttir í Keldudal í Mýrdal, Nikulássonar. Varð snemma hagleiksmaður, fór til Kh. um 1865, nam þar járnsmíðar og hafði lokið því námi í mars 1866. Setti bú í Dilksnesi í Nesjum 1868, stundaði jafnframt smíðar alls konar (hús, báta, rennismíð), sjósókn, veiðiskap, fuglveiði; hinn mesti atorkumaður. Varð hafnsögumaður, er skipagöngur hófust á Hornafjörð, og átti mikinn þátt í verzlunarsamtökum bænda þar.

Stundaði talsvert lækningar, áður en fastur læknir kom í héraðið. Fjölgáfaður maður, hagmæltur og unni mjög kveðskap og bókum. Örlátur um efni fram. Fluttist til Vesturheims 1903, reisti bú, er hann kallaði Skóga í Pine Valley í Manitoba, og stundaði auk búskapar lækningar og smíðar; blómgvaðist þar vel hagur hans. En með því að kona hans festi þar eigi yndi, fluttist hann aftur til Íslands 1907, átti síðan lengstum heima í Dilksnesi.

Kona (6. okt. 1866): Halldóra Stefánsdóttir alþm. í Árnanesi, Eiríkssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Lovísa átti Björn Jónsson í Dilksnesi, Björn hafnsögumaður í Lækjarnesi, Sigríður sst., Ingvar Ísdal rafvirki í Rv., Ásmundur og Stefán smiðir vestan hafs, Sigurður í Krossbæjargerði (Óðinn XIV; Alm. Ól. Þorg. 1933).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.