Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eyjólfur Teitsson

(1730–Í júlí 1804)

Prestur.

Foreldrar: Teitur Loptsson að Skálholtshamri og kona hans Oddný Símonardóttir að Höfða, Jónssonar.

Tekinn í Skálholtsskóla 1745, stúdent þaðan 29. okt. 1750, með mjög góðum vitnisburði.

Var í þjónustu Ólafs byskups Gíslasonar, varð djákn að Kirkjubæjarklaustri, er í Heiðargarði í Landbroti 1762, en bjó í Þykkvabæ (hálfum) í Landbroti 1767, var boðið að taka Sandfell 17. febr. 1772 og vígðist þangað 24. maí s. á., en hafði löngu fyrr (1759) neitað að taka við Reykjadal. Hann bjó oftast að Hofi, meðan hann var í Öræfum. Fekk Hof í Álptafirði 1785, en fekk slag í okt. 1788, svo að hann varð ófær til prestsþjónustu, sagði af sér 1789, en hélt þó staðnum til 1791, og var prestþjónustu haldið uppi af nágrannaprestum.

Hann andaðist að Múla í Álptafirði. Hann var jafnan mjög fátækur, en talinn skörulegur maður og mikils virður. Einari rektor Jónssyni þókti mjög til hans koma, sem sjá má af stúdentsvitnisburðinum, og lagði til 1753, að hann yrði konrektor í Skálholtsskóla, þótt ekki yrði af og lítill yrði frami síra Eyjólfs, hvað sem valdið hefir.

Kona: Ingigerður (f. um 1736, d. á Flugustöðum í Álptafirði 1811).

Börn þeirra, er upp komust: Sigurður í Búlandsnesi, bl., Sveinn að Múla í Álptafirði, síðar í Hvalnesi í Lóni, Jón hreppstjóri á Rannveigarstöðum í Álptafirði, Þóra átti Þorgeir Þorgeirsson að Múla í Álptafirði, Ingunn átti Þorvarð Björnsson að Flugustöðum, Símon, Oddný, Hannes (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.