Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eyjólfur Sigurðsson

(23. febr. 1722–8. júní 1794)

Prestur.

Foreldrar: Sigurður (d. 1779, á 94. ári) Halldórsson í Hólakoti á Höfðaströnd og kona hans Ólöf Sturlaugsdóttir. Tekinn í Hólaskóla, stúdent (eftir 8 vetur) 1746, vígðist 8. jan. 1747 aðstoðarprestur síra Jóns Helgasonar í Hofsþingum, fekk prestakallið við uppgjöf hans 14. júlí 1758 og hélt til dauðadags, hafði síra Benjamín Jónsson, dótturmann sinn, til aðstoðarprests frá 1791. Bjó fyrst að Enni, síðan frá 1757 á parti í Hofi, en frá 1764 á Brúarlandi; drukknaði eða hné örendur af baki í Grafará, og var margrætt um, að hann hefði skömmu áður orðið fyrir áverka af mannavöldum og hafi það dregið til þessa. Hann var knár og fylginn sér, starfsmaður mikill, en búnaðist lítt, sæmilega gefinn, en þrályndur og framgjarn, átti þras við byskupana Árna Þórarinsson og Sigurð Stefánsson, ör og málhvatur við öl, greiðamaður og raungóður.

Kona: Guðrún (d. 1785) Pálsdóttir prests á Höskuldsstöðum, Jónssonar.

Börn þeirra, er upp komust: Kristrún átti Eldjárn stúdent Hallgrímsson, Ingunn átti síra Benjamín Jónsson í Hofsþingum, Kristín átti Þórð Grímólfsson á Nýjulendu (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.