Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Eyjólfur Kolbeinsson

(11. nóv. 1770–4. júní 1862)

Prestur.

Foreldrar:: Síra Kolbeinn Þorsteinsson í Miðdal og kona hans Arndís Jónsdóttir prests á Gilsbakka, Jónssonar. Eftir lát föður hans (1783) var hann 1 vetur í kennslu hjá síra Hílaríusi Illugasyni að Mosfelli í Grímsnesi, síðan 2 ár hjá móður sinni, tekinn í Reykjavíkurskóla hinn eldra 1786, stúdent þaðan 1793, átti launbarn 1789, en fekk uppreisn 7. maí 1790 og var þá tekinn aftur.í skólann, Eftir stúdentspróf vann hann að verzlunarstörfum í Flatey, hjá Pétri kaupm. Kúld, norskum manni, til þess er hann vígðist 6. sept. 1795 aðstoðarprestur síra Jóns Ormssonar í Sauðlauksdal, fekk 10. febr. 1797 uppreisn fyrir barneign (sjá blöð samtímis; o. með konu þeirri, er hann kvæntist mánuði síðar, en missti aðstoðarprestsstarfið, var síðan embættislaus í Flatey til 1802, er hann fór að Sauðlauksdal aftur og varð enn aðstoðarprestur síra Jóns Ormssonar, bjó frá 1811 í Bæ á Rauðasandi og gegndi þeirri sókn, fekk Stað í Grunnavík 21. maí 1814, fluttist þangað sumarið 1815, fekk Eyri í Skutulsfirði 30. júní 1821, frá fardögum árið eftir, hélt aðstoðarpresta frá 1834–8 og aftur frá 1844, lét af prestskap vorið 1848, fluttist þá að Kirkjubóli í Skutulsfirði og andaðist þar. Hann var gáfumaður og góður ræðumaður, söngmaður mikill og fjörmaður, glaðlyndur og kom sér allvel, búhöldur í betra lagi.

Kona (26. okt. 1795): Anna María (d. 15. júní 1838, 67 ára) Pétursdóttir kaupm. Kúlds.

Börn þeirra, er upp komust: Friðrik Kristján (f . 23. sept. 1795, drukknaði 5. júní 1829) að Múla á Skálmarnesi, síðar Selskerjum, Anna Kristín d. 1857, óg. og bl., Jóhanna Friðrika átti síra Ólaf Sívertsen í Flatey, Hílaríus að Hafrafelli, Petrína átti fyrr Benedikt Jónsson á Marðareyri, síðar Guðbrand Hjaltason í Kálfanesi, Andrés formaður í Arnardal, Þóra Katrín átti Jón silfursmið Þórðarson að Kirkjubóli í Skutulsfirði, Mikaelína átti Ásgeir kaupm. Ásgeirsson í Ísafirði (d. 6. júní 1860).

Laundóttir síra Eyjólfs (er hann var í skóla) með Þóru Guðbrandsdóttur á Geirlandi, Eiríkssonar, hét Margrét (f. 21. júlí 1789), var með föður sínum, óg., en átti 1 laundóttur (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.